Það styttist í aðventu og jólaundirbúning

Eftir velheppnaða skammdegishátíð er undirbúningur fyrir jólahátíðina hafinn. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvar Ölfuss eru farnir að setja upp jólaseríur og skreytingar. Skrúðgarðurinn er fallega upplýstur og má sjá íbúa huga að uppsetningu jólaljósa og -skreytinga.

Fyrirhugað er að gefa út aðventudagatal Ölfuss eins og síðustu ár en þar má finna yfirlit yfir helstu viðburði, leiki og sýningar hjá félögum, skólum, stofnunum og þjónustuaðilum á aðventunni. Það væri gaman að fá sem fyrst að heyra frá ykkur um allt sem er á döfinni í sveitarfélaginu okkar í jólamánuðinum. Það má senda inn viðburði á heimasíðunni olfus.is – Veist þú um viðburð – eða til jmh@olfus.is fyrir 18. nóvember.

Á döfinni...

Fjölskylduskemmtun í Skrúðgarðinum
Í ár verða jólaljósin á bæjarjólatrénu tendruð í Skrúðgarðinum föstudaginn 29. nóvember kl. 17. Lúðrasveitin leikur og Barnakór grunnskólans syngur. Grýla og Leppalúði mæta hress og kát með einn son, jólasvein sem skemmtir með látum.
Stórt og fallegt jarðfast grenitré verður fallega skreytt og fær að njóta sín sem bæjarjólatré. 

Jólahúfa Ölfuss 2024
Nú er tilvalið að detta í jólaföndurgírinn og taka þátt í hönnunarsamkeppninni; jólahúfa Ölfuss 2024.
Jólahúfan þarf að vera eigin hönnun og hugmyndaverk, endurunnin, prjónuð, hekluð, saumuð eða eitthvað allt annað.
Jólahúfuna þarf að afhenda á bókasafnið fyrir 16. desember. Verðlaun verða veitt fyrir jólalegustu, skemmtilegustu og frumlegustu jólahúfuna og verður afraksturinn til sýnis á Bókasafninu.

Skreyttir jólasveinagluggar
Ungir sem aldnir hlakka til að fylgjast með jólasveinunum þegar þeir fara að þramma til byggða með eitthvað gott í skóinn en Stekkjastaur mætir fyrstur þann 12. desember. Þann dag opnum við fallega skreytta jólasveinaglugga víða um bæinn. Hver gluggi gefur vísbendingu um heiti íslensku jólasveinanna og er tilvalið að skoða jólasveinagluggana og taka þátt í getraun. Þeir þjónustuaðilar og fyrirtækiseigendur sem hafa áhuga á að vera með og skreyta jólasveinaglugga mega senda línu til jmh@olfus.is

SNJALLI jólaratleikurinn verður í Skrúðgarðinum þriðja árið í röð. Um er að ræða fjölskylduratleik í snjallsímanum þar sem leitin snýst um að finna 13 Þollósveina sem eru í Skrúðgarðinum eða í kringum garðinn og vísa á spurningakóða sem tengjast jólum og ævintýrum.

Margt fleira verður í boði á aðventunni eins og t.d. jólamarkaðir, jólatónar, jólasýningar og jólaskemmtanir.

Njótið jólaundirbúnings og skapið ljúfar minningar í góðri samveru.

Jóhanna M. Hjartardóttir
Sviðstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?