Í þessari viku voru tveir skóladagar helgaðir sögu Þorlákshafnar. Allir nemendur fræddust og unnu verkefni tengd sögu bæjarins í tilefni af 70 ára afmæli Þorlákshafnar.
Nemendur á yngsta stigi fræddust um sögu skólans, þróun skólabygginganna og skólastjóra í gegnum tíðina. Þeir fóru í sögugönguferð um bæinn og unnu myndir af húsum sínum sem voru síðan flokkuð í hverfislitina sem notast er við á Hafnardögum.
Á miðstigi unnu nemendur í aldursblönduðum hópum margskonar fréttaskýringaverkefni tengd sögu bæjarins. Tóku viðtöl og klipptu saman myndbönd með stuttum fréttaskýringum. Seinni daginn fóru þau í ratleik um bæinn sem kennarar höfðu undirbúið. Ratleikurinn var sambland af skemmtun og fróðleik sem endaði með því að allir hópar bjuggu til Dólós-köku en Dolos er steinninn sem er í merki Þorlákshafnar en þannig steinar voru notaðir við hafnargerð hér í bæ á síðustu öld.
Nemendur á unglingastigi unnu verkefni í aldursblönduðum hópum. Nemendur völdu verkefni eftir áhugasviði. Fjölmörg skemmtileg verkefni urðu til í þessari vinnu m.a. sýning á gömlum bekkjarmyndum sem hangir í gluggum í glerhýsi og gaman er fyrir gangandi vegfarendur að skoða. Þá unnu nokkrir nemendur líkan af þróun skólabygginga og settu fram myndverk af þróun í fjölda nemenda. Unnið var með gömul skólablöð og blöð sem gefin hafa verið út í bænum og fréttir og myndir settar upp á vegg. Þá vann hópur kynningu um tónlistarmenn frá Þorlákshöfn og annar hópur vann kynningu á verslunum og fyrirtækjum í bænum. Einn hópur bjó síðan til ratleik um bæinn okkar.
Eftir hádegismat fengu síðan allir afmælisköku í tilefni afmælis bæjarins okkar. Þessir dagar voru skemmtilegir og fræðandi þar sem saman fór skemmtun, fróðleikur og sköpun. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá þemadögunum.