Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Orku náttúrunnar ohf. fyrir framleiðslu á vetni við Hellisheiðarvirkjun.
Verkefnið er hluti af skilgreindu þróunarverkefni á vegum Evrópusambandsins sem heitir "Hydrogen Mobility Europe (H2ME)" og eru lok verkefnisins dagsett 30.júní 2022. Verkefninu er ætlað að stuðla að notkun vetnis sem orkugjafa fyrir bifreiðar og er liður í baráttu við loftlagsbreytingar. Í þessu tilfelli er það markmiðið að nýta orkuframleiðsluna í Hellisheiðarvirkjun á þeim tímum sem minni eftirspurn er eftir rafmagni.
Umhverfisstofnun ákvað vegna eðli verkefnisins sem þróunarverkefnis og þess að lítil umhverfisáhrif eru talin vera af starfseminni að heimila að verkefnið myndi hefjast án starfsleyfis og gildir sú heimild til 19. janúar 2021. Stofnuninni er heimilt að leyfa slíkt á grundvelli 2. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vegna þess að rafgreining vatns til vetnisframleiðslu er þekkt tækni taldi stofnunin þó ekki rétt að skilgreina lengri þróunartíma en til 19. janúar 2021 og því er starfsleyfisauglýsing tímabær.
Tillaga að starfsleyfi ásamt ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, starfsleyfisumsókn og lýsingu á framkvæmd verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 24. nóvember til og með 22. desember 2020 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.
Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar til Umhverfisstofnunar. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 22. desember 2020.
Nánari upplýsingar og gögn má sjá á heimasíðu Umhverfisstofnunar
https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/11/24/Tillaga-ad-starfsleyfi-fyrir-vetnisframleidslu-Orku-natturunnar-ohf/