Upphaf skólaárs í Þorlákshöfn

Nýtt stjórnendateymi er við Grunnskólann í Þorlákshöfn, Garðar Geirfinnsson aðstoðarskólastjóri, Ólí…
Nýtt stjórnendateymi er við Grunnskólann í Þorlákshöfn, Garðar Geirfinnsson aðstoðarskólastjóri, Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri og Erla Sif Markúsdóttir deildarstjóri.

Grunnskólinn í Þorlákshöfn var settur við hátíðlega athöfn í gær. Ólína skólastjóri er nýkomin aftur til starfa eftir árs námsleyfi og flutti ræðu þar sem hún bauð nemendur, foreldra og starfsfólk hjartanlega velkomin til starfa. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að taka vel á móti nýjum nemendum en nemendur skólans hafa aldrei verið fleiri en nú eða um 270 talsins. Sérstaklega var minnst á nýja nemendur frá Grindavík sem vonandi finna sig vel í okkar samfélagi.

Áherslur í skólastarfinu munu áfram snúast um notkun upplýsingatækni, teymiskennslu, og uppeldisstefnuna "Uppeldi til ábyrgðar". Einnig verður lögð áhersla á heilsueflandi grunnskóla og umhverfismennt auk leiðsagnarnáms. Þá verða símareglur skólans teknar til endurskoðunar nú á haustdögum.

Foreldrar voru hvattir til að taka þátt í starfi foreldrafélagsins sem hefur verið öflugt síðustu ár. Skólastjóri minnti á mikilvægi vináttu, virðingar og velgengni sem grunnstoðir skólastarfsins og hvatti nemendur til að leggja áherslu á þessi gildi í sínu daglega lífi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nýtt stjórnendateymi skólans. Garðar Geirfinnsson hefur tekið við starfi aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra unglingadeildar og Erla Sif Markúsdóttir hefur tekið við starfi deildarstjóra mið- og yngstastigs.

Skólaárið 2024-2025 er nú formlega hafið og verður fullt af spennandi verkefnum og tækifærum til vaxtar og þroska.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?