Yfirlýsing frá Gámaþjónustunni hf.

Gámaþjónustan
Gámaþjónustan
Yfirlýsing frá Gámaþjónustunni hf.

vegna málatilbúnaðar Jóns Franzsonar í Fréttablaðinu og á Bylgjunni 3. september.

Íslenska gámafélagið ehf, hefur gert kröfu um aðgang að öllum tilboðsgögnum Gámaþjónustunnar hf. , þar á meðal tilboðsskrám, í opinberu útboði á vegum sveitarfélagsins Ölfuss. Krafan var sett fram í miðju útboðsferli, einungis viku eftir að tilboð voru opnuð. Í útboðsgögnum er skýrt tekið fram að tilboðsskrár séu trúnaðarmál og er það í samræmi við áralanga hefð í slíkum útboðum bæði innan lands og utan. Þá hefð og þann trúnað vill úrskurðarnefnd um upplýsingamál nú rjúfa, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. A 541/2014, en Gámaþjónustan hf. og Sveitarfélagið Ölfus vilja ekki sætta sig við þá niðurstöðu.  Ágreiningsmáli þessu verður því skotið til úrskurðar dómstóla eins og eðlilegt er í réttarríki.  Þess má geta að bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að fá úr þessu skorið fyrir dómsstólum.


Hér er tekist á um það hvort tilboðsskrár bjóðenda í opinberum útboðum verði umsvifalaust aðgengilegar keppinautum þegar við opnun tilboða. Þessi gögn eru nákvæm útlistun á því verði sem bjóðendur treysta sér til að bjóða í einstaka verk- og efnisliði og eiga ekki erindi á borð keppinauta.  Gámaþjónustan hf. telur raunar að afhending slíkra gagna kunni að ganga í berhögg við samkeppnislög.  Af þeim sökum er brýnt að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort upplýsingaréttur á grundvelli upplýsingalaga geti náð til slíkra fjárhagslegra trúnaðargagna í opinberum útboðum.

Gámaþjónustan hf. harmar þær óréttmætu og lítilsigldu persónulegu árásir sem forstjóri Íslenska gámafélagsins ehf. hefur beint að Gunnsteini Ómarssyni,sveitarstjóra Ölfus, vegna þessa máls fyrir það eitt að leitast við að virða þann trúnað sem þátttakendum í umræddu útboði var heitið. Í þessu sambandi má geta þess að í útboðinu bauð Gámaþjónustan hf. 73,7 millj. kr. í sorphirðu fyirir sveitarfélagið Ölfus til 5 ára en Íslenska gámafélagið ehf. bauð 91,1 millj. kr.  í sama verk.   Kostnaðaráætlun sveitarfélagsins var 74,8 millj. kr. Gámaþjónustan hf. var því með mjög eðlilegt tilboð í verkið og á þeim grunni var samið.  Íslenska gámafélagið ehf. átti tilboð talsvert yfir kostnaðaráætlun.  Þessa þjónustu hafði ÍG annast í sveitarfélaginu um langt árabil án útboða.

Sveinn Hannesson
framkvæmdastjóri
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?