Jólatré komið fyrir á ráðhústorgi í rokinu
Starfsmenn í þjónustumiðstöð hafa staðið í ströngu undanfarna daga að setja upp jólaljós á ljósastaura og nú er verið að koma fyrir jólatré á ráðhústorginu
Nú eru fjölmargir búnir að setja upp hjá sér seríur og skraut sem tengist aðventunni. Það gleður litla sem stóra og ljósin eru vel þegin í svartasta skammdeginu. Starfsmenn í þjónustumiðstöð hafa staðið í ströngu undanfarna daga að setja upp jólaljós á ljósastaura og nú er verið að koma fyrir jólatré á ráðhústorginu. Ljós á jólatrénu verða tendruð næstkomandi sunnudag, fyrsta sunnudag í aðventu, þegar efnt verður til hefðbundinnar dagskrá kl. 18:00 á ráðhústorgi. Lúðrasveit Þorlákshafnar og skólakórar grunnskólans munu spila og syngja jólalög, jólasveinar koma í heimsókn og Kiwanismenn bjóða upp á heitt súkkulaði og piparkökur.
Fyrr um daginn verður aðventustund í Þorlákskirkju kl. 15:30, þar sem einnig koma fram skólakórarnir.
En bókasafnið ætlar að taka smá forskot á aðventustemninguna með því að opna jólasýningu í Gallerí undir stiganum fimmtudaginn 28. nóvember. Það er Rut Sigurðardóttir sem sýnir jólaskraut sem hún hefur búið til, ýmist saumað, prjónað, heklað eða perlað. Sýningin opnar kl. 18:00 á miðvikudaginn og eru allir velkomnir