Íbúafundur Sorpstöðvar Suðurlands fór fram í gærkvöldi til kynningar á forsendum fyrir staðarvali og uppbyggingu á mögulegum urðunarstað á Nessandi í Ölfusi sem hluta af samstarfi sorpsamlaga á Suðvesturlandi. Góð mæting var á fundinum en um 50 manns mættu til að kynna sér málið. Einnig var streymt beint frá fundinum og nú í morgunsárið höfðu rúmlega 800 manns horft á fundinn. Hægt er að sjá upptöku frá fundinum inn á Facebook síðu sveitarfélagsins með því að smella hér.
Málið er enn á frumstigi og engar ákvarðanir hafa verið teknar en Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar, sagði að málið yrði skoðað vandlega og ekki anað að neinum ákvörðunum. Eins nefnir hann að gagnsæi sé mjög mikilvægt og að íbúar fái að fylgjast með ferlinu á meðan því stendur.
Möguleg staðsetning sem um ræðir er á Nessandi um 8,5 km frá Þorlákshöfn og um 5 km frá Selvogi á reit sem nefnist U1 í aðalskipulagi Ölfuss. Sá reitur er hugsaður fyrir móttöku- og flokkunarstöð og því þyrfti að breyta bæði deili- og aðalskipulagi ef samþykkt verður að setja urðunarstað þar. Ekki hefur verið framkvæmd ítarleg rannsókn á svæðinu hvort það henti til urðunar og hver áhrifin yrðu en sú rannsókn þarf að fara fram áður en ákvörðun verður tekin um framhald.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss tók til máls á fundinum og sagði að það yrði að fara mjög varlega í þessum málum því sveitarfélagið búi yfir gríðarlegum tækifærum þar sem sveitarfélagið er með mikið kalt vatn og jarðvarma sem er tilvalið til matvælaframleiðslu ásamt vaxandi útflutningshöfn.
Bæjarstjórn mun vinna vandlega að þessu máli og leyfa íbúum Ölfuss að fylgjast með framvindu þess.