AUGLÝSING um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu

Sveitarfélagið Ölfus auglýsir eftir aðilum til að nýta lóð innan afréttar í Ölfusi.  Lóðin sem um ræðir eru 700 m2 í Innstadal. Þar fyrir er skáli í einkaeigu sem leyfi var gefið fyrir 1982. Aðrir umsækjendur en núverandi eigendur verða því að gera ráð fyrir að þurfa að leysa til sín skálana ef af úthlutun lóða verður.

Svæðið er í þjóðlendu er nefnist Ölfus-og Selvogsafréttur. Umrætt svæði er þjóðlenda skv. úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 6/2004 og dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2009. Í ljósi þess þarf leyfi Sveitarfélagsins Ölfuss til að nýta land og landsréttindi á svæðinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og áfrétta. Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting á að vara lengur en til eins árs, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Ekki liggur fyrir deiliskipulag og er skálinn víkjandi komi til skipulags fyrir svæðið til annarra nota.

Skilmálar sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi. Ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

- hvernig viðkomandi hyggst nýta lóðina í þeim tilgangi að skálinn eða hluti hans nýtist göngu- og skíðafólki

- frágangur mannvirkja og annarrar starfsemi. Ekki er heimilt að byggja meira magn á lóðinni en það sem komið er, þó heimilt að byggja anddyri við skálann. Sveitarfélagið mun sérstaklega líta til þess að frágangur verði með þeim hætti að samræmist landslagi vel og stingi ekki í stúf við umhverfið að öðru leyti,

- lóðarhafi skal gæta þess að landið umhverfis skálann spillist ekki af mikilli umferð.

Upplýsingar um svæðisins má nálgast hjá skipulags- og byggingarfulltrúa á skrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss á skrifstofutíma og á heimasíðu sveitarfélagsins www.olfus.is

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til Sveitarfélagsins Ölfuss eigi síðar en 1. ágúst 2017.

Þorlákshöfn 18. júlí 2017.

Sigurður Ósmann Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi.

 

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?