Líkt og annarsstaðar á Suðurlandi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Ölfusinu næstu helgi.
Líkt og annarsstaðar á Suðurlandi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Ölfusinu næstu helgi. Flestir viðburðir verða í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn, en einnig verður opið á sýningum hjá Orkusýn í Hellisheiðarvirkjun og á Hafinu Bláa verður sölusýning á glerslistaverkum Ellu Rósinkrans auk þess sem sett verður upp kaffihlaðborð. Í Þorlákshöfn verður opið í glervinnustofunni Hendur í höfn og Rummungur Ræningi verður á sviði Leikfélags Ölfuss laugardag og sunnudag. Á bókasafninu í Þorlákshöfn verður síðan ýmislegt um að vera á föstudaginn, 2. nóvember. Þá opnar Davíð Þór Guðlaugsson ljósmyndasýningu í Gallerí undir stiganum, sýningarsvæði safnsins. Davíð Þór hefur undanfarið tekið myndir af vinnandi fólki í Þorlákshöfn. Myndirnar hefur Davíð unnið fyrir sýningu sem ber yfirskriftina atvinnulíf í Þorlákshöfn. Þetta verður fróðleg samtímaheimild um atvinnulífið í bænum. Opnun sýningarinnar verður klukkan 18:00 og eru allir velkomnir. Sama kvöld og á sama stað mæta síðan konur sem fróðar eru um vampírur og kunna að skrifa spennandi hrollvekjur. Allir eru velkomnir á magnþrungna og sérlega áhugaverða kvöldstund sem betur er kynnt annarsstaðar í blaðinu.
Tónar við hafið í nýjum búningi
Á sunnudeginum verður síðan efnt til menningardagskrár undir yfirskriftinni Tónar við hafið, en þetta er fyrsta kvöldið þar sem Tónarnir verða með breyttu sniði. Í stað tónleikaraðar, hefur menningarnefnd ákveðið að efna til menningarstunda, þar sem fleiri listgreinar en tónlistin koma að og einnig verður fjallað um menningarsöguleg málefni. Á þessari fyrstu menningarstund verður fjallað um blaðamennsku í Þorlákshöfn og Ölfusinu. Útgefendur segja frá blaðamennskunni, útgáfumálum og rifja upp skemmtilegar minningar úr útgáfuferlinum. Eftir því sem starfsmenn á bókasafninu hafa komist að, hafa verið gefin út tíu ólík blöð í Þorlákshöfn og er þá aðeins talið saman það sem var gefið út reglubundið í einhvern tíma. Öll þau blöð sem bókasafnið varðveitir munu liggja frammi, þannig að hægt verður að blaða í gegnum þau. Valdar greinar og myndir verða stækkaðar upp og hengdar upp til sýnis. Að sjálfsögðu verður einnig boðið upp á tónlist, en það er Skuggabandið frá Hveragerði sem sér um tónlistarflutninginn. Bandið er Shadows tribute-band, skipað feðgunum Páli Sveinssyni á trommur og Matthíasi Hlífari Pálssyni á bassa og feðgunum Herði Friðþjófssyni á gítar og Davíð Harðarsyni á gítar. Dagskráin hefst klukkan 17:00 á sunnudeginum og er ókeypis á þessa fyrstu dagskrá Tóna við hafið með nýju sniði.
Selvogurinn með í fyrsta skipti
Í fyrsta skipti nær dagskrá Safnahelgar vestur í Selvoginn. Þar ætlar hún Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, sem lengi var með handverkshús á Selfossi, að vera með opið hús í Þorkelsgerði. Sigurbjörg er einkar lagin við að sjá ákjósanlegan efniðvið fyrir listsköpun sína í náttúrunni og er fræg fyrir að draga heim til sín allskyns dót sem aðrir myndu ekki leggja lykkju á leið sína til að ná í. Dótið sem hún sankar að sér nýtir hún til að mála á eða búa til fallegt handverk. Þannig endurnýtir hún efniviðinn og gefur honum nýtt hlutverk. Opið verður hjá Sigurbjörgu bæði laugardag og sunnudag og mun hún sýna gestum fram á að það sé hægt að mála á allt, en það er einmitt yfirskrift sýningar hennar.
Hægt er að skoða alla dagskrá Safnahelgar HÉR