Blessuð sé minning Jónasar Ingimundarsonar

Jónas á tónleikum í Þorlákskirkju í apríl 2024.
Ljósmyndari: Gunnar Leifur Jónasson
Jónas á tónleikum í Þorlákskirkju í apríl 2024.
Ljósmyndari: Gunnar Leifur Jónasson

Heiðurslistamaður Ölfuss, Jónas Ingimundarson, píanóleikari er látinn, 80 ára að aldri. Jónas er Þorlákshafnarbúum vel kunnur, enda ólst hann hér upp og átti stóran þátt í að byggja upp tónlistarlífið á staðnum. Síðastliðið vor bauð Jónas, í samstarfi við sveitarfélagið, uppá tríótónleika í Þorlákskirkju í tilefni af áttræðis afmæli sínu. Tónleikarnir voru eftirminnilegir bæði fyrir framúrskarandi tónlistarflutning og vegna frásagnar Jónasar af æskuárunum hér í Þorlákshöfn.

Ferill Jónasar sem píanóleikari spannar um 50 ár og hefur hann leikið verk eftir flesta af helstu meisturum tónlistarsögunnar. Árið 2005 heiðraði menningarnefnd Ölfuss Jónas með menningarverðlaunum í þakklætisskyni fyrir ómetanlega aðstoð hans og hvatningu til framdráttar menningarlífi í Ölfusinu. Í mörg ár kom hann á afmælisdegi Ingimundar föður síns og bauð uppá glæsilega tónleika í kirkjunni en pabbi hans hafði frumkvæði að kirkjubyggingunni og var kórstjóri Söngfélagsins þegar hann lést 1982. Jónas var gæddur einstökum hæfileikum en hann miðlaði tónlist í tali og tónum á lifandi hátt þannig að áhorfendur hrifust með og lærðu að njóta og skilja tónlistina á nýjan hátt. Minningin um einstakan tónlistarmann lifir í hjörtum okkar Ölfusinga um ókomna tíð.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Fyrir hönd Sveitarfélagsins Ölfuss
Jóhanna Margrét Hjartardóttir

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?