Bókabæjafundur laugardaginn 17. janúar kl. 13:00
Bókabæirnir austanfjalls boða til fundar þann 17. janúar næstkomandi.
Bókabæirnir voru stofnaðir í september 2014 og eru samstarf þriggja sveitafélaga, Árborgar, Hveragerðis og Ölfuss. Viðtökur hafa verið afar jákvæðar og góðar og nokkrir viðburðir hafa þegar verið haldnir í nafni Bókabæjanna. Ný heimasíða leit dagsins ljós í janúar, www. bokabaeir.is og netfang sem er bokaustanfjalls@gmail.com fyrir fólk sem vill senda okkur tillögur og efni.
Hugmyndin er að Bókabæirnir austanfjalls verði vettvangur fyrir íbúa svæðisins til að gera samfélagið okkar meðvitaðra um þann fjársjóð sem við búum yfir en nýtum lítið sem ekkert sem er bókmenntaarfurinn okkar. Stefnt er að því að draga fram í dagsljósið sögurnar, rithöfundana, prentlistina og hæfileika okkar allra til að vinna eitthvað skemmtilegt úr þessu, okkur öllum til gagns og gleði.
Á fundinum, sem verður haldinn í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka, verður farið yfir stöðuna og hvað er framundan, stofnaðir vinnuhópar um verkefni eins og kortlagningu á bókmenntaarfinum, vinnu að menningardagskrá og kynnt hugmynd að prentsmiðjusafni og fleira. Rætt hefur verið um að halda barnabókahátíð á árinu þar sem Ármann Kr. Einarsson hefði orðið 100 ára á þessu ári og Jón Oddur og Jón Bjarni eiga fertugsafmæli. Einnig hefur komið fram hugmynd um að halda bókamarkað og stofna hóp sjálfboðaliða til að lesa upp fyrir fólk. Ferðir til Bókabæja erlendis og á bókahátíðir hafa verið ræddar og ýmislegt fleira. Enn er þó nóg af plássi fyrir nýjar og ferskar hugmyndir.
Fundurinn hefst kl. 13.00, allir velkomnir.