Bóndadagur

Petur
Petur
Það er sögð „skylda bænda“ „að fagna þorra” eða „bjóða honum í garð” með því að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gengur í garð (þ.e. í dag).

 

Bóndadagur

Í dag er Bóndadagur  eða fyrsti dagur Þorra, en hann á sér langa sögu. Mánaðarnafnið Þorri er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.  Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum.  Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst.  Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni í 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld.  Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.  Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkominn enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndandum.  Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk.  Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar.  Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans.  Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldri þorrafagnaði.

Það er sögð „skylda bænda“ „að fagna þorra” eða „bjóða honum í garð” með því að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gengur í garð (þ.e. í dag). Eiga þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa. Síðan eiga þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag. Þetta heitir „að fagna þorra“ skv. Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

 

Svo segir í Fornaldarsögum Norðurlanda, „Frá Fornjóti og hans ættmennum“:

Fornjótr hét maðr. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annarr Logi, þriðji Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs váru þau Þorri, Fönn, Drífa ok Mjöll. Þorri var konungr ágætr. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði ok væri skíðfæri gott. Þat er ár þeira. Þat blót skyldi vera at miðjum vetri, ok var þaðan af kallaðr Þorra mánaðr.

Þorri konungr átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, ok gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanr at blóta, ok kölluðu þeir síðan þann mánað, er þá hófst, Gói. Þeir Nórr ok Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, ok fellu fyrir honum þeir konungar, er svá heita: Véi ok Vei, Hundingr ok Hemingr, ok lagði Nórr þat land undir sik allt til sjóvar. Þeir bræðr fundust í þeim firði, er nú er kallaðr Nórafjörðr. Nórr fór þaðan upp á Kjölu ok kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali ok síðan í Vermaland ok með vatni því, er Vænir heitir, ok svá til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sik, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallaðr Noregr.

 

Heimild: Árni Björnsson: Saga daganna.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?