Breytingar verða á greiðslum fyrir komu með úrgang á gámasvæði Ölfuss frá og með 1. janúar 2025.
Upplýsingar á pólsku - Polski
Frá þeim tíma þurfa allir sem nota gámasvæðið að greiða við komu fyrir gjaldskyldan úrgang sem þeir þurfa að afsetja. Notkun á rafrænu klippikorti er hætt frá sama tíma. Þetta er í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs sem sveitarfélögum er skylt að uppfylla.
Markmiðið með breytingunni „borgað þegar hent er“ er að neytendur séu meðvitaðir um að það, að vera með úrgang felur í sér ábyrgð á því að greiða fyrir afsetningu hans. Eftir því sem neytendur eru betur meðvitaðir um að nýta þær leiðir sem til eru til að koma hlutum og öðrum úrgangi í endurnýtanlegt form t.d. með því að gefa nýtanlega hluti áfram til þeirra sem þurfa á þeim að halda að þá er hægt að lágmarka þann kostnað sem hlýst að því að losa sig við hluti.
Sveitarfélaginu er nú óheimilt að niðurgreiða sorpúrgang eins og verið hefur. Það á jafnt við um sorphirðu frá heimilum og móttöku- og flokkunarstöðinni. Innheimtu gjalda fyrir móttöku- og flokkunarstöð og sorphirðu á heimilum er ætlað að standa undir öllum kostnaði við sorphirðu í sveitarfélaginu enda er óheimilt að niðurgreiða málaflokkinn.
Eftirtaldir flokkar eru ekki gjaldskyldir: bylgjupappír/pappír, plastumbúðir, heyrúlluplast, hjólbarðar, málmar, föt og textíll, raftæki og spilliefni. Tekið við greiðslum í posa eða að fyrirtæki eru í reikning.
Hvað kostar að losa hvern losunarflokk? Gjaldskrá
Þetta þýðir sem dæmi að ef komið er með 1 m3 af grasi er greitt 1.488 kr. Gjaldið á 0.25 m3 fyrir gras er 372. kr.
Annað dæmi er að ef komið er með 1 m3 af grófum úrgangi s.s. plasthúsgögn, dýnur, húsgögn og annað óflokkað þá kostar það 4 x 2.728 = 10.912 kr. Gjaldið fyrir 0.25 m3 af grófum úrgangi er 2.728 kr.
Að lágmarki er greitt fyrir 0,25m3.
Samfélagsleg ábyrgð okkar allra er sú að ganga vel um okkar umhverfi, lágmarka úrgang og sýna ábyrga hegðun þegar við þurfum að losa okkur við þá hluti sem við þurfum ekki lengur á að halda. Stöndum öll saman í því til góðra verka.
Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs og sorphirðu Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs og gámasvæði
Grenndarstöðvar
Við breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs var hlutverk grenndarstöðva skilgreint og nú er hægt að skila gleri, málmi og textíl. Mun svona grenndarstöð verða sett fyrir utan gámasvæðið. Kostnaður við rekstur grenndarstöðva verður hluti af fastagjaldi heimila.
Frá 1.janúar 2025 þurfa íbúar að kaupa tunnur, lok og teygjur fyrir tunnurnar og er það gert á heimasíðu Ölfuss. Tunnur og íhlutir eru svo afhent í Þjónustumiðstöð Ölfuss. Einnig er hægt að óska eftir að tunnur verði keyrðar heim gegn gjaldi. Sjá gjaldskrá á heimasíðu sveitarfélagsins.
Sorpgjöld á heimili
Breyting verður á sorpgjöldum heimila með þeim hætti að nú er greitt fyrir hvert sorpílát. Einnig er lagt fast gjald á öll heimili og fyrirtæki sem standa á undir rekstri grenndar- og söfnunarstöðva og öðrum föstum kostnaði sem til fellur.
Sveitarfélagið fær greitt úr Úrvinnslusjóði vegna flokkunar á pappa og plasti sem kemur frá heimilum sveitarfélagsins. Endurgreiðslan er alfarið háð því hversu mikið er flokkað á heimilum í sveitarfélaginu og kemur hún til lækkunar á kostnaði við sorpmál. Það er því allra hagur að allir íbúar taki þátt í flokkun á sorpi.
Athugið breyttan opnunartíma gámasvæðis frá og með 1 janúar 2025:
Mánudagar – fimmtudagar 14:00 – 17:00
Föstudagar 13:00 – 18:00
Laugardagar 10:00 – 14:00