Hákon Svavarsson ræðir við Eddu Laufeyju í skrúðgarðinum í Þorlákshöfn
-Edda Laufey Pálsdóttir og hennar starf í þágu bæjarins
-Skrúðgarðurinn og saga hans
Edda Laufey Pálsdóttir hefur starfað í mörgum félagasamtökum og verið frumkvöðull að mörgum góðum málum í bæjarfélaginu. Hún greinir Hákoni Svavarssyni, nemanda í Grunnskólanum og sumarstarfsmanni á bókasafninu frá því hvernig skrúðgarðurinn varð til og hugmyndum sínum um hvernig nýta megi garðinn í framtíðinni.
Þegar ég var beðinn um að skrifa grein um einhvern íbúa Þorlákshafnar sem hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu bæjarfélagsins og ræddi þetta við samstarfsfólk mitt á bókasafninu, kom nafn Eddu Laufeyjar Pálsdóttur strax fram. Ég ákvað því að ræða við Eddu Laufeyju og hitti hana m.a. á góðum degi í skrúðgarðinum og fræddist heilmikið um hennar þátt í uppbyggingu garðsins og framtíðardraum hennar um hann.
Edda Laufey Pálsdóttir er gift Svani Kristjánssyni fyrrum útibústjóra en hann vann sem sveitastjóri í Þorlákshöfn í 7 ár. Einnig rak Svanur Skálann í 20 ár. Þau Svanur og Edda Laufey eiga 3 börn og 7 barnabörn. Þau hafa búið hér í Þorlákshöfn síðan árið 1966, en þá bjuggu 500 manns í þorpinu. Þeim leist strax vel á bæinn. Hér var heilmikið athafnalíf, öflug fiskvinnsla og stækkun hafnarinnar var þá í brennidepli.
Edda Laufey vann fyrst hjá Pósti og Síma í 8 ár en það var til húsa í gamla pósthúsinu að Reykjabraut 1. Lengst af vann hún þó sem læknaritari á heilsugæslustöðinni eða í 20 ár. Edda Laufey hefur verið virkur þátttakandi í mörgum félögum í bænum s.s. eins og Ferðamálafélagi Ölfuss, en félagið fer í ferðir ýmist upp á fjöll eða út í óbyggðir. Edda Laufey er búin að vera í Ferðamálafélaginu í 13 ár. Einnig var hún ein af stofnendum Kyrjukórsins og var lengi í honum en er nú hætt. Edda Laufey er líka í Kvenfélagi Þorlákshafnar og er ritari þar. Hún hefur tekið þátt í mörgum verkefnum með kvenfélaginu m.a að koma upp skrúðgarði í Þorlákshöfn. Ekki er allt upp talið því á síðasta ári stofnaði Edda ásamt fleirum Samtök lista- og handverksfólks í Ölfusi og situr hún í stjórn samtakanna. Edda Laufey fór í leiðsögunám þegar hún hætti að vinna og hefur tekið á móti mörgum hópum að undanförnu og sýnt þeim m.a. skólann, skrúðgarðinn, íþróttamannvirkin, kirkjuna og vitann. Einnig hefur hún tekið að sér að skipuleggja ferðir eldri borgara.
Edda Laufey lagði á það áherslu að henni fyndist mikilvægt að klára það sem hún er að fást við og gera það vel.
Skrúðgarðurinn
Þegar Edda Laufey rifjar upp tilurð skrúðgarðsins í blaðinu Lat sem eitt sinn var gefið út í Þorlákshöfn, greinir hún frá því að verkfræðingar frá Ölfushreppi komu stundum í kaffi til hennar og einu sinni sem oftar var verið að ræða um skipulag þorpsins. Edda Laufey spurði hvar þeir ætluðu að hafa skrúðgarð hér bæ. Hún fékk það svar að það væri engin þörf á skrúðgarði því að hér væri útivistarsvæði allt í kring um þorpið. Hún var ekki sátt við þetta svar (Latur, 6. maí 1982, bls. 1 ).
Vorið 1974 ákváð Kvenfélag Þorlákshafnar að byrja framkvæmdir við skrúðgarðinn í Þorlákshöfn og með leyfi hreppsnefndar var þeim afhent svæði milli Hjallabrautar og Hafnarbergs til að gera skrúðgarð og útivistarsvæði. Það má segja að þetta hafi verið mikil bjartsýni og við fengum líka að heyra það segir Edda Laufey. En allt gekk vel og unnið var af fullum krafti og skrúðgarðurinn er orðinn að veruleika í dag. Landið var svo sem ekki gott og það var ekki ræktarlegt, heldur berar klappir og ógurlegt grjót. Kvenfélagskonur fengu skrúðgarðaráðunautinn Óla Val Hansson til að teikna og skipuleggja svæðið. Það var gengið í hús til að fá fjármagn og tóku þorpsbúar mjög vel á móti þeim. Svo var hafist handa við að keyra mold og skít og var það fyrir peningana sem þær söfnuðu. Þær leituðu einnig til fyrirtækja sem lánuðu þeim vörubíla og þetta fór vel af stað. Í fyrrnefndri grein í Lat segir Edda að vorið 1975 var garðurinn girtur. Ölfushreppur lagði til efnið en eiginmenn og ýmsir góðir menn hjálpuðu okkur við að girða.
Kvenfélagskonur byrjuðu að planta í sunnanverðum garðinum og fikruðu sig lengra eftir því sem betur gekk að gróðursetja. Lagðar voru þökur og var allur garðurinn þökulagður. Einnig voru gróðusett tré allan hringinn í kringum garðinn. Gróðursettar voru 4.000 plöntur á þeim 10 árum sem kvenfélagskonur sáu um garðinn. Vorið 1984 afhentu þær svo Ölfushreppi garðinn.
Auðvitað fylgdi þessu verkefni mikil vinna við að reita arfa og illgresi. Kvenfélagskonur sáu um að hirða og lagfæra þangað til Sveitarfélagið réð starfsmanninn Hrönn Guðmundsdóttur í hlutastarf til að sjá um garðinn og reyta vorið 1981.
Eddu Laufeyju dreymir um að gróðursetja íslensku flóruna í norðvesturhornið í garðinum, innan um klappir sem eru þar. Hún sér mikil tækifæri í því að hafa sýnishorn úr íslensku flórunni í garðinum. Nemendur í grunnskólanum geta komið og skoðað hana og lært um íslensku flóruna. Hún getur líka verið áhugaverð fyrir ferðamenn og auðvitað mundu blómin lífga upp á garðinn því þau eru litrík og falleg. Eddu Laufeyju fyndist gaman ef það mundi nást að gera einhverskonar grasagarð þarna.
Framtíð skrúðgarðsins
Til að fræðast um það hver framtíðarplön sveitarfélagsins í tengslum við skrúðgarðinn eru, hitti ég að máli Gunnþór Kristján Guðfinnsson, umhverfisstjóra sveitarfélagsins.
Gunnþór sýndi mér teikningu af hönnun skrúðgarðsins sem Hlín Sverrisdóttir gerði. Á teikningunni má sjá göngustíga í kross í gegnum garðinn með útgönguleiðum. Eitt horn skrúðgarðsins er hellulagt og gert ráð fyrir að þar sé hægt að vera með sýningar. Í einu horninu er gert ráð fyrir bekkjum og hugsanlega útigrilli. Leiktæki eru í einu horninu og svið og svæði fyrir hátíðartjald á stærsta svæðinu fyrir hátíðarhöld t.d. Hafnardaga. Skrúðgarðurinn og vinna að honum hefur ekki verið í forgangi í skipulagi sveitarfélagsins, en garðurinn er þó í aðalskipulaginu og Gunnþór segir að þótt garðurinn sé ekki alveg forgangsverkefni, þá sé unnið í garðinum jafnt og þétt og að það verði vonandi byrjað á næsta eða þarnæsta ári á þessum framkvæmdum. Hann sagði að allt kostaði peninga og vonandi fái þeir fjármagn til að gera ýmsa hluti í garðinum. Vel er tekið í hugmyndir bæjarbúa og eiginlega allar tillögurnar sem koma fram á teikningunni og Gunnþór nefnir, séu hugmyndir frá bæjarbúum. Hann bætti við að hann sjái fram á að vinna garðinn með bæjarbúum og það yrði ræktað meira, vinnuskólinn mundi halda áfram að reyta hann og gróðusetja þegar að því kemur en um aðra vinnu sjái verktakar og aðrir aðilar þar sem flest allt þarf að gera með vinnuvélum.
Ég vil þakka Eddu Laufeyju fyrir að leyfa mér að taka viðtal við sig og segja mér svona mikið frá þessu. Einnig vil ég þakka Gunnþóri fyrir að svara spurningum mínum og sýna mér teikningu af framtíðarhugmyndum um skrúðgarðinn.
Greinarhöfundur: Hákon Svavarsson sumarstarfsmaður Bæjarbóksafns Ölfuss