Hin árlega tónlistarhátíð Englar og menn hefst í Strandarkirkju sunnudaginn 30. júní nk. með opnunartónleikum kl. 14. Yfirskrift tónleikanna er ,,Himinborna dís” en flytjendur eru Björg Þórhallsdóttir sópran, Elísabet Waage hörpuleikari, Hjörleifur Valsson fiðluleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Megnið af efnisskránni verða sönglög Atla Heimis Sveinssonar, helguð minningu hans, en einnig sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns Franz Schubert o.fl.
Hátíðin stendur yfir frá 30. júní til 11. ágúst með tónleikum á sunnudögum kl. 14. Á hátíðinni í ár koma fram margir af fremstu söngvurum og tónlistarmönnum landsins ásamt nýstirnum úr íslenskum söngheimi.
Í Strandarkirkju er einstakur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemningu og nálægð. Flytjendur sumarsins eru með það í huga við val á efnisskrá sinni sem er afar fjölbreytt og spennandi að vanda og rík áhersla er lögð á flutning þjóðararfsins - íslenskra þjóðlaga og sönglaga.
Aðrir flytjendur sumarsins eru:
7. Júlí - Lilja Guðmundsdóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir harmóníum og píanó;
14. júlí - Hrafnhildur Árnadóttir sópran, Þorsteinn Freyr Sigurðsson og Matthildur Anna Gísladóttir harmóníum og píanó;
21. Júlí - Auður Gunnarsdóttir sópran, Ágúst Ólafsson baritón og Eva Þyrí Hilmarsdóttir harmóníum og píanó;
28. júlí - Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir sópran, Egill Árni Pálsson tenór og Hrönn Helgadóttir harmóníum og píanó;
4. ágúst - Vala Guðnadóttir sópran og mandólín, Helga Laufey Finnbogadóttir harmóníum og píanó og Guðjón Þorláksson kontrabassi.
Á lokatónleikum hátíðarinnar 11. ágúst kl.14 koma svo fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Oddur Arnþór Jónsson baritón, Elísabet Waage hörpuleikari, Gunnar Kvaran sellóleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti.
Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd. Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.900 kr.
Strandarkirkja er ein þekktasta áheitakirkja landsins og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.
Mikil fegurð er í Selvognum og þangað er tæpur klukkustundar akstur frá Reykjavík um Þrengslin. Tilvalið er að taka með sér nesti eða fá sér veitingar hjá heimamönnum.
Nánari upplýsingar veitir Björg Þórhallsdóttir í síma 898 4016.