Heimsókn í fiskvinnsluna Auðbjörgu
Fiskvinnslufyrirtækið Auðbjörg og kaffihúsið Hendur í höfn, hafa tekið höndum saman um að taka á móti ferðamönnum í sumar
Fiskvinnslufyrirtækið Auðbjörg og kaffihúsið Hendur í höfn, hafa tekið höndum saman um að taka á móti ferðamönnum í sumar. Unnið hefur verið undanfarið að því að þróa verkefni þar sem hópum af ferðamönnum er boðið að fara í gegnum fiskvinnsluna með leiðsögn, sjá sýnishorn af þeim fiskum sem þarna eru verkaðir og fræðast um vinnsluferlið. Í kjölfarið er síðan farið í kaffihúsið Hendur í höfn, þar sem hægt verður að bragða á einhverju því sem unnið hefur verið hjá Auðbjörgu.
Af tilefni Leyndardóma Suðurlands var gestum boðið að kynna sér verkefnið, fara um fiskvinnsluna og síðan var boðið upp á humarsúpu í Hendur í höfn í dag og voru meðfylgjandi myndir teknar við það tilefni.
Á morgun, þriðjudaginn 1. apríl, verður boðið upp á tvær skoðunarferðir, fyrst klukkan 13:00 og síðan klukkan 15:00.