Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss

Þorlákshöfn
Þorlákshöfn

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir árið  2018 ásamt þriggja ára áætlun 2019-2012 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 14. desember sl.


Fjárhagsáætlunin er unnin með það að meginmarkmiði að íbúum sveitarfélagsins verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði af fremsta megni að halda álögum á íbúa í sem bestu samræmi við það sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum.

Fjárhagsáætlunin var unnin af öllum bæjarfulltrúum sameiginlega ásamt öðru starfsfólki sveitarfélagsins.

Heildartekjur Sveitarfélagsins Ölfuss (A- og B-hluta) á árinu 2018 eru áætlaðar 2.418 m.kr. Þar af eru skatttekjur áætlaðar 1.450 m.kr. framlög úr jöfnunarsjóði 454 m.kr. og aðrar tekjur 514 m.kr.

Rekstrargjöld eru áætluð 2.214 m.kr.  Þar af eru laun og launatengd gjöld 1.132 m.kr. annar rekstrarkostnaður 908 m.kr. og afskriftir 174 m.kr.

Rekstarniðurstaða samstæðunnar er því áætluð jákvæð um 203 m.kr. fyrir fjármagnsliði.

Fjármagnsliðir eru áætlaðir nettó 72 m.kr. og er áætluð rekstarniðurstaða samstæðunnar því jákvæð um 131 m.kr.

Áætlað veltufé frá rekstri er 368 m.kr.

Afborganir langtímalána eru áætlaðar 121 m.kr. og tekin verða ný lán að upphæð 355 m.kr.

Gert er ráð fyrir 2.5% verðbólgu innan ársins í samræmi við spár Seðlabanka Íslands.

Gjaldskrár sveitarfélagsins verða almennt hækkaðar um 2.2%.

Á árinu 2018 er áætlað að verja 620 m.kr. til framkvæmda.

Helstu framkvæmdir verða að lokið verður við endurbætur á elsta hluta leikskólans og eru áætlaðar 89 m.kr. til verksins.

Þá eru áætlaðar 262 m.kr. til uppbyggingar íþróttamannvirkja og ber þar hæst endurbætur og stækkun íþróttahússins 220 m.kr. og nýir heitir pottar við sundlaugina 25 m.kr.

Þá eru áætlaðar 65 m.kr. til uppbyggingar á móttöku- og flokkunarstöð fyrir úrgang.

Hafist verður handa við hönnun viðbyggingar við Egilsbraut 9 og eru áætlaðar 15 m.kr. til verksins.

Unnið verður að uppbyggingu fráveitu og vatnsveitu í nýju iðnaðarhverfi bæjarins vestan Þorlákshafnar svo og frekari endurbætur innan Þorlákshafnar og áætlaður framkvæmdakostnaður beggja veitnanna alls 100 m.kr.

Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við höfnina fyrir um 133 m.kr. á árinu og ber þar hæst endurnýjun á stálþili við Svartasker.

Þá hefur sveitarfélagið samþykkt að leggja fram 37 m.kr. stofnframlag til byggingar almennra leiguíbúða í Þorlákshöfn sem leiguíbúðafélagið Bjarg mun byggja en mikill skortur hefur verið á leiguhúsnæði nú síðustu ár.

Helmingur stofnframlagsins verður greiddur á árinu 2018 og lokagreiðsla fer fram þegar íbúðirnar verða tilbúnar til útleigu en búist er við því vorið 2019.

Á árunum 2019-2021 er gert ráð fyrir að rekstur sveitarfélagsins verði með svipuðum hætti og á árinu 2018.

Áfram verður unnið að frekari uppbyggingu á innviðum og mannvirkjum sveitarfélagsins með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúana ennfrekar.

Helstu framkvæmdir áætlunarinnar á árunum 2019-2021 eru eftirfarandi:

Fyrirhugaðar eru miklar framkvæmdir í endurnýjun eldri gatna svo og nýframkvæmdir en á þessum þremur árum er áætlað að veita 475 m.kr. til þessa málaflokks.

Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar við fráveitu bæjarins svo hún uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja og eru áætlaðar 118 m.kr. til verksins.

Þá verður áfram unnið í frekari uppbyggingu á vatnsveitu bæjarins á tímabilinu og áætlaðar í það verkefni 35 m.kr.

Einnig er fyrirhugað að byggja við Egilsbraut 9 og fjölga leiguíbúðum fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins og er kostnaður við það áætlaður um 300 m.kr. 

Áfram verður unnið að frekari uppbyggingu hafnarinnar og áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir á tímabilinu 421 m. kr.

Áformuð er stækkun við Grunnskólann í Hveragerði í samvinnu með Hveragerðisbæ en áætlaður hlutur sveitarfélagsins í henni er 21 m.kr.

Á tímabilinu verða einnig greiddar eftirstöðvar stofnframlaga til byggingar almennra leiguíbúða í Þorlákshöfn 18 m.kr.

Til að mæta þessum kostnaði er gert ráð fyrir lántökum á árunum 2019-2021 að upphæð 535 m.kr".

Fjárhagsáætlun 2018-2021

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?