Það er ýmislegt á döfinni í Þorlákshöfn í kvöld og um helgina sem fólk ætti ekki að láta framhjá sér fara.
Það er mikið um að vera í Þorlákshöfn í dag og næstu daga. Klukkan 18 í dag, fimmtudaginn 1. mars opnar Sigurbjörg Eyjólfsdóttir sýningu í Gallerí undir stiganum. SIgurbjörg býr í Selvoginum og hefur í gegnum tíðina málað fjölmargar myndir sem tengjast Selvoginum og Strandarkirkju. Hún nýtir margvíslegt efni sem hún finnur til að mála á. Sýning Sigurbjargar stendur yfir til loka marsmánaðar.
Annað kvöld verður lokakvöld karíkeppni fyrirtækja og stofnana, en það eru hjónin Eddi og Sigurbjörg Arndal sem efna til keppninnar til að standa straum af kostnaði við skólahreystibraut sem þau dreymir um að setja upp við íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn. Á laugardagskvöldinu verður síðan heilmikil skemmtun í ráðhúsinu þegar félag eldri borgara efnir til árshátíðar.