Opinn íbúafundur var haldinn á Egilsbraut 9 í gær, miðvikudaginn 23. maí 2018, þar sem kynntar voru hugmyndir um uppbyggingu þjónustuíbúða og aðra þjónustubót við Níuna.
Sveinn Steinarsson forseti bæjarstjórnar Ölfuss opnaði fundinn og sagði frá vinnu starfshóps um verkefnið sem settur var saman af bæjarstjórn á síðasta ári. Starfshópurinn, sem settur er saman af fulltrúum frá Sveitarfélaginu Ölfusi, Öldungaráði sveitarfélagsins, Félagi eldri borgara í Ölfusi og Höfn hollvinasamtökum, fékk endurnýjað umboð í byrjun þessa árs og fékk hópurinn Tækniþjónustu SÁ til liðs við sig við útfærslu hugmynda.
Sigurður Ásgrímsson og Þórhallur Garðarsson frá Tækniþjónustu SÁ kynntu hugmynd að úrfærslu byggingar sem sjá má hér í viðhengi. Mjög góðar umræður sköpuðust um hugmyndina og ekki annað hægt að greina en að almenn ánægja hafi verið með fundinn og hugmyndina. Áfram verður unnið með hugmyndina en fjárhagsáætlun Ölfuss gerir ráð fyrir því að verkefnið verði fullhannað á þessu ári, framkvæmdir hefjist á næsta ári og að byggingin verði að fullu kláruð árið 2020.
Afstöðumynd
Grunnmynd, 1, 2 og 3 hæð
Útlit