Fjölmennur kynningarfundur í Básnum – mikill áhugi fyrir ljósleiðara í dreifbýli Ölfuss

Kynningarfundur I
Kynningarfundur I
Góð mæting á kynningarfund í Básnum
Yfir hundrað manns mættu á fundinn, þar sem fulltrúar GR fóru ítarlega yfir verkefnið, kosti þess og framkvæmd.

Eins og þekkt er orðið gerðu Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) og Sveitarfélagið Ölfus (SÖ) með sér samning í lok janúar sl. um lagningu ljósleiðara og rekstur gagnaflutningskerfis þar sem GR mun byggja upp og reka háhraða gagnaflutningskerfi, byggt á ljósleiðaratækni, í sveitarfélaginu.

Kynningarfundur fyrir íbúa dreifbýlis Ölfuss var haldinn mánudagskvöldið 10. mars sl. í Básnum, Efstalandi í Ölfusi, þar sem fulltrúar GR fóru ítarlega yfir verkefnið, kosti þess og framkvæmd.  Yfir hundrað manns mættu á fundinn, þrátt fyrir leiðinda veður og greinilegt er að mikill áhugi er fyrir verkefninu.  Meðal þess sem fram kom er að engin stofngjöld verða innheimt vegna tengingar íbúðarhúsa en fyrirtækjum og eigendum sumarhúsa býðst að tengja hús sín gegn stofngjaldi.

Eigendur íbúðarhúsa sem vilja fá ljósleiðara tengdan í hús sitt og eiga kost á því þurfa að skuldbinda sig til notkunar hans í a.m.k. 2 ár.  Á fundinum var boðið uppá að ganga frá yfirlýsingu um slíka skuldbindingu og staðfesta með því þátttöku en í samningnum milli GR og SÖ er kveðið á um að 85 skuldbindingar þurfi til að af framkvæmdinni verði.  Gengið var frá um 50 yfirlýsingum þetta kvöld og fastlega má gera ráð fyrir því að á allra næstu dögum náist tilskilinn fjöldi skuldbindinga.

Það er rétt að benda á að eigendur íbúðarhúsa sem ekki skuldbinda sig nú en sækjast síðar eftir að tengjast ljósleiðarakerfinu munu eiga þess kost, ef af verkefninu verður, gegn greiðslu stofngjalds sem nemur þeim kostnaði sem til fellur við tengingu þeirra á þeim tíma en slík tenging getur orðið kostnaðarsöm og því borgar sig engan veginn að bíða með þátttöku.

Allir eigendur íbúðarhúsa sem ekki hafa þegar staðfest þátttöku í verkefninu ættu í þessari viku að vera búnir að fá viðeigandi eyðublað til útfyllingar og er þeim bent á að senda það útfyllt og undirritað til Gagnaveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík fyrir lok marsmánaðar.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið og þátttöku í því veita Gunnar Valdimarsson, verkefnisstjóri (gunnar.valdimarsson@gagnaveita.is) og Jóhann Sveinn Sigurleifsson, sölustjóri (johannss@gagnaveita.is).  Síminn hjá Gagnaveitu Reykjavíkur er 516 7777 og á heimsíðunni, www.gagnaveita.is má finna ítarlegar upplýsingar um verð og skilmála Ljósleiðarans.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?