Tónleikar Tóna við hafið í Þorlákshöfn
Góð byrjun á tónleikaröðinni Tónum við hafið.
Fyrstu tónleikar Tóna við hafið þennan vetur voru síðastliðinn föstudag þegar Sigurður Flosason, Ragnheiður Gröndal, Egill Ólafsson, Matthías Hemstock og Kjartan Valdemarsson mættu á svið í Ráðhús Ölfuss. Flutt voru lög Sigurðar Flosasonar við ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar sem fjalla um eyðibýli, fólk, landslag, hús, hluti og hina framliðnu. Söngvararnir fóru á kostum í túlkun og blæbrigðaríkum söng og hljóðfæraleikararnir spiluðu af mikilli innlifun og kunnáttu. Það voru mjög ánægðir tónleikagestir sem yfirgáfu húsið að tónleikum loknum og tónlistarfólkið var afskaplega ánægt með móttökurnar.
Næstu tónleikar Tóna við hafið verða í Þorlákskirkju laugardaginn 16. október. Þá flytja Guðrún Ingimarsdóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir tónverk eftir Bach, Händel, Holst, Mozart og fleiri.