Það var hátíðleg stund í Grunnskólanum í Þorlákshöfn þegar nemendur, starfsfólk skólans og gestir, þ.á. m. settur bæjarstjóri Guðni Pétursson, skipuðu sér í raðir í kringum fánastangirnar í morgun og biðu eftir að Grænfáninn yrði dreginn að húni. Lárus Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Landverndar, afhenti umhverfisnefndinni fánann og viðurkenningaskjal fyrir hönd skólans. Sigurður Jónsson og Borgar Sigurðsson, yngstu nefndarmennirnir, hífðu upp fánann. Viðstaddir brostu út að eyrum og klöppuðu þegar fáninn blakti við hún. Grunnskólinn í Þorlákshöfn hefur unnið að þessu verkefni í tæp þrjú á og getur nú flaggað fánanum í tvö ár.
Áður hafði Lárus haldið smá tölu um verkefnið og útskýrt táknin í Grænfánanum. Hringurinn eru jörðin og sólin, maðurinn minnir á mikilvægi samspils manns og náttúru, græni liturinn er litur lífsins og hvíti og blái liturinn minnir okkur á hreint loft og vatn sem er nauðsynlegt öllu lífi.
Lárus er nýráðinn framkvæmdastjóri Landverndar og var þetta í fyrsta skipti sem hann afhenti Grænfánann og fyrsti skólinn sem hann tók út í byrjun febrúar. Hann óskaði nemendum og starfsfólki til hamingju og hvatti skólann til að halda áfram á sömu braut svo hægt væri að endurnýja Grænfánann að tveimur árum liðnum.
Öllum var boðið upp á nýbakaðar kleinur í tilefni dagsins.