Bæjarhátíðin Hafnardagar var haldin hátíðleg með pompi og prakt dagana 9.-12.ágúst. Þátttaka bæjarbúa í öllum dagskrárliðum var með frábæru móti og má segja að gleði og rólegheitarstemming, ásamt lygilegu veðri, hafi einkennt yfirbragð hátíðarinnar. Dagskrá hátíðarinnar, sem að mestu leyti fór fram í skrúðgarðinum, bauð uppá eitthvað fyrir alla. Þar má nefna öfluga ungmennadagskrá þar sem meðal annars var boðið uppá sundlaugarpartý þar sem Áttan hélt uppi stuðinu og bubblubolta keppni sem vakti mikla lukku. Á föstudagskvöldinu var hátíðin sett og var það Amma Dídí sem sá um að kynna dagskrána af sinni alkunnu snilld. Það var svo hinn geðþekki Jón Jónsson sem skemmti fólki og þar á eftir stýrði Hlynur Ben fjöldasöng undir brennu. Kvöldinu var lokað með flugeldasýningu og lúðrasveittu partýi sem lúðrasveit Þorlákshafnar sá um. Á laugardag skelltu Villi og Sveppi sér til Þorlákshafnar og rifu upp stemminguna og leikfélag Ölfuss sýndi fjölskylduleikritið Leynilíf garðdverganna. Í skrúðgarðinum var einnig risastór handverks – og sölumarkaður og hoppukastalar voru staðsettir í garðinum fyrir yngri kynslóðina. Um kvöldið voru risa tónleikar með hljómsveitinni Amabadama þar sem fólk sat undir berum himni með teppi og naut samveru, góðrar tónlistar og fallegs veðurs.
Kærar þakkir fyrir frábæra þátttöku, án ykkar er engin hátíð. Hamingjan er hér!