Hamingjan við hafið, bæjarhátíð Sveitarfélagsins Ölfuss fer fram 2. - 6. ágúst og má með sanni segja að það verði nóg um að vera fyrir alla aldurshópa.
Hápunktur hátíðarinnar er laugardagskvöldið 6. ágúst þegar glæsilegir stórtónleikar verða haldnir í Skrúðgarðinum í Þorlákshöfn þar sem fram koma meðal annars Bassi Maraj, Reykjavíkurdætur og hljómsveitin Albatross sem fær til sín fjölmarga gesti. Þar má nefna heimafólkið Júlí Heiðar, Emilíu Hugrúnu, Önnu Möggu og síðast en alls ekki síst Jónas Sig. Stórstjarnan Ragga Gísla stígur á stokk og Ölfusingurinn og Eurovisionfarinn okkar Lay Low einnig. Fjallabræður koma fram og hin eina sanna Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þar að auki verður leynigestur, lifandi goðsögn svo ekki sé meira sagt.
Gerum bæjarhátíðina enn betri með virkri þátttöku
Bæjarhátíðir eru langskemmtilegastar þegar íbúar taka virkan þátt, þannig myndast fjölmörg tækifæri til að kynnast nágrönnum sínum betur og búa til það góða samfélag sem við viljum tilheyra. Það verður nóg af tilefnum til þess þegar Hamingjan fer fram og eru íbúar sérstaklega hvattir til að skrá sig í tilheyrandi hverfahópa og taka virkan þátt við hvert tækifæri.
Hverfin skiptast á eftirfarandi hátt.
Blá hverfið: Elsti hluti Þorlákshafnar, allar götur sem enda á braut.
Hér er blái hverfahópurinn.
Gula hverfið: Allar götur sem enda á búð.
Hér er guli hverfahópurinn
Græna hverfið: Allar götur sem enda á berg.
Hér er græni hverfahópurinn.
Rauða hverfið: Allar götur sem enda á hraun og byggð.
Hér er rauði hverfishópurinn
Fjólublá hverfið: Allir í dreifbýli Ölfuss.
Það vantar nauðsynlega kraftmikla einstaklinga úr dreifbýli Ölfuss til þess að búa til hóp og halda utan um og hvetja íbúa í dreifbýli til að taka þátt í öllu hverfafjörinu. Áhugasamir mega endilega gefa sig fram með því að senda email á verkefnastjóra, asaberglind@gmail.com.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig hverfin taka þátt í hátíðinni, en um er að ræða þrjá dagskráliði þar sem hverfin leggja sitt af mörkum í undirbúningi og skipulagi. Það eru starfandi nefndir í öllum hverfum (vantar í fjólubláa) sem halda utan um skipulag en í þessu gildir að margar hendur vinna létt verk. Það er tilvalið fyrir alla þá fjölmörgu nýbúa í sveitarfélaginu að nýta þetta tækifæri til að kynnast öðrum nágrönnum og mynda tengsl í samfélaginu.
Býrð þú til handverk, listaverk eða áttu prjónaafurðir í stórum bunkum? Áttu kannski fullan bílskúr af dóti sem þú vilt selja? Væri þá ekki ráð að bjóða í opið hús?
Laugardaginn 6. ágúst frá 12.30-16.30 hafa nokkrir íbúar ákveðið að vera með sýningar, sölu og/eða opið hús og enn geta fleiri bæst í þennan góðan hóp. Hafið endilega samband við verkefnastjóra á asaberglind@gmail.com ef þið vera með sölu og/eða sýningu. Íbúar í dreifbýli eru sérstaklega hvattir til að vera með.
Viltu bjóða garðinn þinn fram fyrir tónleika? Eða koma fram á garðtónleikum Hljómlistafélags Ölfuss?
Fimmtudagskvöldið 8. ágúst stendur Hljómlistafélag Ölfuss fyrir garðtónleikum um allan bæ. Áhugasöm geta enn boðið fram garða fyrir þennan viðburð. Þá er einnig tónlistarfólki í sveitarfélaginu bent á félagasíðu þar sem hægt er að vera með í félaginu, sjá hér.
Á næstu dögum verða dagskráliðir Hamingjunnar við hafið kynntir á Facebook síðu og Instagram síðu Hamingjunnar og dagskráin birtist í heild sinni síðar í þessum mánuði. Fylgist með og látið ekkert framhjá ykkur fara með því að gera “mæti/going” á viðburðinn Hamingjan við hafið 2022.
Fyrir hönd Sveitarfélagsins Ölfuss langar verkefnastjóra að nota tækifærið og þakka af öllu hjarta þeim fjölmörgu fyrirtækjum, félagsamtökum og viljugum einstaklingum sem leggja sitt af mörkum svo hægt sé að halda glæsilega bæjarhátíð, okkur öllum til ánægju og yndisauka.