Umfjöllun eftir Hákon Svavarsson, sumarstarfsmann bókasafnsins
Hákon, sumarstarfsmaður bókasafnsins hefur unnið greinar og tekið viðtöl við aðila sem bjóða upp á nýjungar í Þorlákshöfn. Að þessu sinni fjallar hann um nýju knæpuna í bænum, Happy Hour.
Það eru hjónin Alejandro Suarez og Olga Jóhannsdóttir sem reka staðinn Happy Hour sem er nýr krá í Þorlákshöfn.
Það var í apríl 2011 sem hugmyndin að staðnum kviknaði. Alejandro og Olga byrjuðu að þróa hana áfram og athuga hvað væri hægt að gera. Húsnæði fundu þau í Unubakkanum og vissu að þar var einu sinni til húsa Svarti Sauðurinn, en hann ráku Anton Viggósson og Katrín Stefánsdóttir. Þau athuguðu málið hjá þeim og ákváðu að leigja af þeim húsnæðið undir staðinn. Eftir það gengu hlutirnir hratt fyrir sig.
Það var síðan um Hafnardagahelgina, fyrstu helgina í júní sem staðurinn opnaði. Mikill fjöldi fólks var í höfninni sem sóttu staðinn og var það strax auðséð að ekki væri hægt að hleypa öllum inn í einu. Þannig að það þurfti að hleypa inn í hollum.
Staðurinn er opinn á fimmtudögum frá 22-01 en til 03 um helgar, sjónvarp er á staðnum, enski boltinn er byrjaður og verða helstu leikirnir sýndir, einnig verður fylgst með golfinu og boxinu.
,,Ef kosningar eða Eurovision eru í gangi verður búin til stemmning úr því segir Olga.
Auk sjónvarpsins er til staðar pílukast og í nánustu framtíð mun verður útbúin betri aðstaða fyrir pílukastara.
Einnig eru á staðnum borðspil, ef einhverjir vilja spila.
,,Móttökurnar á staðnum hafa verið framar okkar væntingum segir Olga og bætir því við að bæjarbúar hafi vantað einhvern stað til að koma saman á.
Hún er þakklát bæjarbúum fyrir að sýna þeim velvilja.
Hægt er að fá allt milli himins og jarðar á staðnum hvað varðar drykki og nasl hefur verið í boði hússins fyrir gestina.
Olga vill koma því á framfæri að 20 ára aldurstakmark er á barinn um helgar, en allir aldurshópar séu velkomnir að koma og fylgjast með boltanum.
Þau Alejandro taka einnig að sér að sjá um afmælisveislur, einkapartý fyrir vinnustaði eða saumaklúbba, hægt er að panta partýplatta og gera góðar veislur.
Framtíðarplön staðarins eru að hafa karókí, lifandi tónlist og ýmsar uppákomur.
Einnig ætla þau að skipuleggja ungmennakvöld þar sem yngri kynslóðin fær að njóta sín, því að þó þetta sé krá, þá býður staðurinn uppá mikla möguleika fyrir alla.
Ákveðið var að hanna staðinn með appelsínugulu þema á veggjum og síðan var unnið út frá því. Alejando gerði merki(logo) staðarins.
Að lokum vill Olga benda á facebook síðu staðarins (Happy Hour á Facebook), en þar er hægt að sjá hvað er í boði á staðnum. ,, það eru alltaf einhverjar nýjungar.
Hákon Svavarsson sumarstarfsmaður Bæjarbókasafns Ölfuss