Heimsókn frá Changsha, vinabæ Þorlákshafnar.

Árið 2016 eignaðist Sveitarfélagið Ölfus vinabæ í Kína, sem heitir Changsha. Í Changshaborg búa 7.900.000 milljónir manna og er Changsha höfuðborg Hunan héraðs. Changsha býr yfir 3000 ára merkilegri sögu og árið 2017 var Changsha útnefnd menningarborg Austur Asíu. Einnig tilheyrir Changsha hópi fjölmargra borga sem hafa hlotið titilinn ,,skapandi borg“ en það er UNESCO sem stendur fyrir þeim tilnefningum. Changsha hlaut alþjóðlegu UN - Human habitats verðlaunin fyrir umhverfisverkefni og skipulag árið 2015. Changsha hefur einnig verið valin hamingjusamasta borg Kína 10 ár í röð.

Það var snemma í janúar sem fulltrúi frá Changsha hafði samband við sveitarfélagið, með það markmið að koma á skipulagðri heimsókn frá Changsha til Þorlákshafnar. Miðvikudaginn 30. maí tók sveitarfélagið á móti sjö fulltrúum frá Changsha. Formleg móttaka fór fram í Versölum þar sem við skiptumst á gjöfum. Við ákváðum að bjóða uppá snarl úr heimabyggð og buðum uppá söl og harðfisk með íslensku smjöri. Þau vöru treg til að smakka og ætluðu alls ekki að fallast á að smakka með smjöri. Að lokum fór það þannig að þeim þótti smjörið merkilegast. Við kíktum svo upp í grunnskóla þar sem Guðrún skólastjóri tók á móti okkur. Við fengum að líta inní 2. bekk og 5. bekk. Gestirnir áttu ekki til orð yfir þessi fallegu og góðu börn og vildu láta mynda sig með nemendum 2. bekkjar. Þeir höfðu orð á því að í þessum skóla væri nemendum greinilega vel stjórnað og bættu svo við að greinilegt er að þau fá næga athygli og umhyggju, sem getur reynst erfitt að veita nemendum í þeirra skólaumhverfi, sökum menningar og fjölda nemenda.

Þar sem óskað var eftir að kynnast orkumálum í Ölfusin þótti nærtækast að fara með gestina upp í Hellisheiðarvirkjun og fá kynningu frá þeim og skoða jarðhitasýninguna. Eftir hana tókum við rúnt upp í Hveragerði, fórum í jarðskjálftaherminn og kíktum inn í Reykjardal. Það þótti þeim merkilegt svæði og áttum við fullt í fangi með að tapa þeim ekki uppeftir áleiðis inn í dal.

Eftir þennan rúnt var farið í Raufarhólshelli og síðast en ekki síst var deginum lokað með yndislegum mat á Hendur í höfn.

Eftir liggur boðsbréf til Changsha og ánægðir gestir sem fóru þreyttir en sælir aftur heim til Kína.

 

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?