Hjallastefnuleikskólinn Bergheimar - Framtíðarsýn

Forsaga

Fyrir fimm árum síðan var gert samkomulag á milli Sveitarfélagsins Ölfus og Hjallastefnunnar um formlegt samstarf. Vegna þess að leikskólinn Bergheimar var á þeim tíma, og er enn, eini leikskóli sveitarfélagsins var það mat skólastjórnanda, foreldra og fulltrúa sveitarfélagsins að innleiðing Hjallastefnunnar yrði tekin í skrefum. Var það gert á þeim forsendum að ekki væri skólaval fyrir barnafjölskyldur í sveitarfélaginu.

Þannig var kynjaskipt skólastarf ekki innleitt og skólafatnaður ekki heldur, nema fyrir þær fjölskyldur sem það kusu.

Komandi skólaár - haustið 2025

Á komandi hausti verður opnaður nýr leikskóli í Þorlákshöfn og verður sá leikskóli rekinn af Sveitarfélaginu Ölfusi. Á þeim tímapunkti verður Hjallastefnan innleidd að fullu á Bergheimum. En það þýðir að kjarnar á Bergheimum verða kynjaskiptir og skólaföt verða tekin í notkun á öllum kjörnum.


Hjallastefnan

Hjallastefnan á sér 35 ára sögu í íslensku menntaumhverfi og er kennd við leikskólann Hjalla í Hafnarfirði þar sem stefnan þróaðist hjá Margréti Pálu Ólafsdóttur sem þar var leikskólastýra. Það sem helst einkenndi skólastefnuna þá, og gerir enn, er opinn og náttúrulegur efniviður, skýrar hópaskiptingar barna með hópstýrum/stjórum og kynjaskipting stóran hluta skóladagsins. Síðar bættist við skólafatnaður sem er mjög einkennandi.

Í dag eru Hjallastefnuskólar á Íslandi átján, í ellefu sveitarfélögum. Hver og einn Hjallastefnuskóli er einstakur og starfar sjálfstætt undir stjórn skólastýru sem hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á daglegum rekstri skólans. Þannig hefur hver skóli sitt eigið andrúmsloft og sína eigin menningu en allir starfa skólarnir þó að sameiginlegu markmiði og eftir sömu námskrá, hugmyndafræði Hjallastefnunnar, sem liggur til grundvallar öllum þáttum fagstarfsins.

Allt sem gerist í Hjallastefnuskóla byggir á hugsjónum sem eru nánar útskýrðar í meginreglum og kynjanámskrá sem mælt er með foreldrar og fjölskyldur kynni sér vel. Meginreglurnar eru grunnur fyrir skólamenninguna og ákvarða lausnir í öllu skipulagi og aðferðum. Kynjanámskráin snýst um persónuþroska hvers barns svo og þá hegðun sem starfsfólk þarf að tileinka sér. Námskráin er iðkuð alla daga og myndar að auki lotur sem skipta skólaárinu upp í sex starfstímabil.

Kynjaskiptir kjarnar

Skólar Hjallastefnunnar vinna að sjálfsögðu eftir Aðalnámskrá leikskóla en búa þar að auki að sérstakri kynjanámskrá og unnið er kerfisbundið eftir þeirri námskrá allan ársins hring. Kynjanámskráin er birtingarmynd á hugsjónum Hjallastefnunnar um jafnrétti allra barna. Hið kynjaskipta skólastarf hefur það að markmiði að gera öllum börnum jafn hátt undir höfði og að mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Það er ávallt markmið Hjallastefnunnar að gefa börnum kost á því að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning allra er virt og viðurkennd.

Vert er að hafa hugfast að kynjaskipting Hjallastefnunnar er ekki markmið heldur verkfæri til þess að ná jafnræði milli allra barna í skólastarfi.

Skólafatnaður

Öll leikskólabörn í Hjallastefnuskólum, frá 12 mánaða til 12 ára, klæðast skólafötum yfir skóladaginn. Skólafatnaður er hluti stefnunnar og tilkominn til þess að jafna stöðu hvers og eins barns sem Hjallastefnunni er treyst fyrir.

Það sama á við um allt starfsfólk sem klæðist skólabolum og öðrum vinnufatnaði á meðan á skóladegi stendur.

Skólafatnaður er aukinheldur hugsaður til þess að auka á liðsheild og til þess að æfa börn í þeirri hugsun að „koma með sig sjálf“ í skólann. Þegar börn koma með sig sjálf í skólann þá eru utanaðkomandi áhrif síður að trufla þau í leik og starfi og þau gera fremur dvalið í eigin hæfni, getu og áhuga. Með skólafatnaði trúum við að þannig megi laða fram einstaklings sérkenni og persónuleiki barna fái betur notið sín.

Skólafatnaðurinn er alltaf hugsaður sem svo að þægindi skipti höfuðmáli. Fötin eru sniðin og hönnuð til þess að takast á við áskoranir daglegs lífs í skólanum, þau eru notarleg í leik og starfi, úti sem og inni. Fatnaðurinn er hugsaður kynjahlutlaus og samanstendur af joggingbuxum, leggings, bómullarbolum, háskólapeysum og ullarpeysum. Höfuðatriði er að við erum alltaf öll saman í liði og að hvert og eitt barn upplifi sig einstakt og dýrmætt.

Við hlökkum mikið til þess að opna Bergheima eftir sumarleyfi, að geta boðið upp á Hjallastefnuna í sinni tærustu mynd, hitta fyrir fjölskyldur og börn sem hafa verið hjá okkur og kynnast nýjum börnum og fjölskyldum þeirra.

Með kærleikskveðjum,

Helena skólastýra og Júlíana aðstoðarskólastýra

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?