Næstu tónleikar Tóna við hafið verða miðvikudaginn 24. mars. Þá mæta í Þorlákshöfnina tónlistarmenn sem standa upp úr í íslensku tónlistarlífi um þessar mundir ef marka má íslensku tónlistarverðlaunin sem afhent voru síðustu helgi. Það eru hljómsveitin Hjaltalín sem hlaut verðlaun fyrir plötu ársins 2009 og Sigríður Thorlacius ásamt Heiðurspiltum, en Sigríður var valin rödd ársins 2009.
Hljómsveitin Hjaltalín var stofnuð árið 2004. Það fór ekki mikið fyrir henni til að byrja með en hjómsveitin vakti athygli þegar hún kom fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins árið 2006. Nokkru síðar kom sveitin fram í sjónvarpsþætti Jóns Ólafssonar og þá fór boltinn endanlega að rúlla og sveitin sló í gegn með laginu Goodbye July/Margt að ugga. Í byrjun desember 2007 kom síðan út fyrsta breiðskífa sveitarinnar. Undanfarið hefur hlómsveitin haldið fjölda tónleika bæði innanlands en þó heldur fleiri á erlendri grundu. Söngkona sveitarinnar, Sigríður Thorlacius gaf út sinn fyrsta disk síðastliðið haust þar sem hún syngur ástsælustu lög Jóns Múla Árnasonar við undirleik svonefndra Heiðurspilta. Diskurinn seldist mjög vel og undir lok árs héldu báðir hópar sem mikið til eru skipaðir sama tónlistarfólkinu, í sameiginlega tónleikaferð um landið. Nú er komið að sunnlendingum að fá fá að njóta tónlistar þessa hæfileikaríka fólks. Tónleikarnir verða eins og fyrr segir miðvikudaginn 24. mars í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn. Húsið opnar klukkan 20 en tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Miðaverða á tónleikana er 1.500 krónur.