Ný sýning opnar í Galleríi undir stiganum á Bæjarbókasafni Ölfuss, fimmtudaginn 6. júní kl. 16:00. Það er hin fjölhæfa listakona úr Selvoginum, Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, sem sýnir að þessu sinni en hún er óhrædd við að prófa nýjan efnivið og nýtir ýmsa hluti úr umhverfinu og náttúrunni til listsköpunar. M.a. hefur hún málað á ryðgaðar skóflur, kerti og rekavið, unnið með leir og síðastliðinn vetur myndskreytti hún bók um Þorlák helga fyrir bandarískan rithöfund.
Sýningin ber yfirskriftina „Hvar er fjallið sem var á myndinni í gær?“ og vísar til þess hve miklum breytingum myndlistin getur tekið á meðan verið er að vinna að henni. Viðfangsefnið að þessu sinni er íslenski torfbærinn og náttúran en Sigurbjörg sækir mikinn innblástur í umhverfi sitt.
Bæjarbókasafnið býður upp á kaffi og konfekt við opnunina en sýningin verður opin á opnunartíma bókasafnsins í júní.