Íbúakosning um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn hefst mánudaginn 25.nóvember 2024

Á 331.fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss þann 15.05.2024 var samþykkt að fresta íbúakosningu um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn þar til frekari gögn lægju fyrir.

Nú liggur fyrir að verkfræðistofan Cowi hefur tekið að sér að rannsaka og leggja fram gögn er varðar þann varhug sem FirstWater galt varðandi ryk, hávaða og titring frá mölunarverksmiðju í Keflavík. Þeirri vinnu hefur miðað vel áfram. Í samræmi við fyrri samþykktir hefur Sveitarfélagið Ölfus falið verkfræðistofunni Eflu að yfirfara þessi gögn og leggja mat á fagleg gæði þeirra. Enn fremur að Efla leggi sérstakt mat á hvort að niðurstöður þessara rannsókna kalli á að Sveitarfélagið Ölfus óski eftir því að Skipulagsstofnun opni umhverfismat að nýju. Fulltrúar Eflu telja einsýnt að þeim takist að ljúka sinni vinnu þannig að gögn liggi fyrir vel áður en til íbúakosninga kemur í samræmi við lög þar að lútandi.

Þá liggur og fyrir að Det Norske Veritas hefur í nokkurn tíma unnið að hættumati fyrir Þorlákshöfn og vænta höfn í Keflavík. Stefnt er að því að gögn þar að lútandi liggi fyrir eigi síðar en 4. nóv. nk. og geti því farið í kynningu samhliða gögnum frá Eflu.

Bæjarstjórn Ölfuss leggur nú til að boðað verði að nýju til bindandi íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga um aðal- og deiliskipulagstillögur vegna mölunarverksmiðju og hafnar í Keflavík við Þorlákshöfn. Skipulagstillögurnar eru aðgengilegar á vefsíðu sveitarfélagsins og á vef Skipulagsstofnunar.

Íbúum mun því gefast kostur á að kjósa um tillögurnar og verða svarmöguleikar eftirfarandi:

Já (ég samþykki skipulagstillögurnar og þar með að fyrirtækið fái heimild til að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).

eða

Nei (ég hafna skipulagstillögunum og þar með að fyrirtækinu verði ekki heimilað að reisa verksmiðjuna sem fjallað er um í áður auglýstum skipulagstillögum).


Kosið er um eftirfarandi skipulagstillögur:

Aðalskipulagsbreyting
Lögð er fram tillaga að aðalskipulagsbreytingu fyrir iðnaðar og hafnarsvæði vestan byggðar í Þorlákshöfn. Hámark byggingarmagns á reit I3 er aukið úr 540.000 m2 í 1.040.000 m2. Þá er nýju hafnarsvæði bætt við sem nefnist H4.

Deiliskipulag
Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir mölunarverksmiðju og höfn á Laxabraut 43A og 43B. Mölunarverksmiðja samanstendur af fjölbreyttum byggingum með mismunandi hlutverk. Á hafnarsvæðinu er gert ráð fyrir hafnaraðstöðu með krana, mannvirkjum, athafnarsvæðum, færiböndum og öðrum innviðum fyrir rekstur og þjónustu hafnarinnar.


Skipulögin eru til kynningar á bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss og á vef sveitarfélagsins. Einnig má sjá skipulögin á vef Skipulagsstofnunar. Ábendingum, athugasemdum eða spurningum má beina á skipulag@olfus.is


Framkvæmd íbúakosningarinnar verður með þeim hætti að kosningin skal standa yfir í tvær vikur og hefst þann 25. nóvember næstkomandi og lýkur 9.desember.

Framkvæmd íbúakosningarinnar byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga og hefur Sveitarfélagið Ölfus notið leiðsagnar KPMG við undirbúninginn. Reglurnar eru að mörgu leyti sambærilegar kosningalögum en helsti munur er að ekki er um einn eiginlegan kjördag að ræða heldur er tímabil kosningar frá 25.nóvember til 9.desember

Íbúakosningin hefst 25. nóvember á skrifstofu sveitarfélagsins og verður opið alla virka daga á opnunartíma skrifstofu sveitarfélagsins.

Á kjördegi Alþingiskosninga þann 30. nóvember næstkomandi gefst kjósendum tækifæri til að greiða atkvæði á kjörstað og er opnunartími sá hinn sami og við Alþingiskosningarnar.

Kjósendur geta óskað eftir að greiða atkvæði í póstkosningu með því að senda póst á formann kjörstjórnar Sigurð Jónsson á netfangið sigginonna@gmail.com eða á Söndru Dís Hafþórsdóttur sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs á netfangið sandradis@olfus.is

Atkvæðagreiðsla með pósti fer fram með þeim hætti að kjósandi óskar eftir því við kjörstjórn að fá kjörgögn send til sín á það heimilisfang eða það netfang sem hann gefur upp. Halda skal skrá utan um þá kjósendur sem fá kjörgögn send til sín. Óski kjósandi eftir að fá atkvæði sent á heimilisfang er atkvæðaseðill ásamt sendiumslagi, kjörseðilsumslagi og fylgibréfi sent til kjósanda á umbeðið heimilisfang. Kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í kjörseðilsumslagið í viðurvist tveggja lögráða votta eða lögbókanda. Kjósandi fyllir út fylgibréf og leggur það og atkvæðisumslag í sendiumslagið. Óski kjósandi eftir að fá kjörgögn send rafrænt eru þau send á umbeðið netfang. Atkvæðaseðill og fylgibréf eru prentuð út og kjósandi merkir við atkvæðið og leggur það í umslag sem kjósandi útvegar sjálfur. Umslagið og fylgibréf eru lögð í annað umslag sem kjósandi útvegar einnig sjálfur. Kjósandi annast sjálfur sendingu atkvæðis til kjörstjórnar og ber kostnað af sendingu bréfsins.

Rétt til þátttöku í íbúakosningu hafa þeir sem mega kjósa í sveitarstjórnarkosningum, þ.e.:

a) Hver íslenskur, danskur, finnskur, sænskur eða norskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning hefst og á skráð lögheimili í því sveitarfélagi sem íbúakosning fer fram,

b) Erlendur ríkisborgari, annar en greinir í a-lið, ef hann hefur átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar

Atkvæðagreiðslan er bindandi skv. 3. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Yfirkjörstjórn sveitarfélagsins fer með hlutverk kjörstjórnar vegna íbúakosninga.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?