Um miðjan ágúst gaf Matvælastofnun út lista yfir fiskeldisstöðvar á Suðurlandi, en þar kemur fram að framleiðsla á bleikjueldi hefur aukist umtalsvert síðastliðin fjögur ár.
Um miðjan ágúst gaf Matvælastofnun út lista yfir fiskeldisstöðvar á Suðurlandi, en þar kemur fram að framleiðsla á bleikjueldi hefur aukist umtalsvert síðastliðin fjögur ár. Af 21 fiskeldisstöð með starfs- og rekstrarleyfi á Suðurlandi eru 15 í bleikjueldi. Þegar staðsetning fiskeldisstöðvanna er skoðuð kemur í ljós að sjö þeirra eru í Ölfusi. Tölur Matvælastofnunar um umfang ræktunarinnar eru reyndar frá síðasta ári, en þá voru um 680 tonn framleidd á Suðurlandi og þar af um 410 í Ölfusi, langmest bleikja eða um 280 tonn en einnig lax. Mest framleiddi Náttúra fiskrækt ehf, sem er staðsett í Þorlákshöfn, eða um 150 tonn.
Tvö stærstu fyrirtækin, Náttúra fiskirækt og Eldisstöðin Ísþór sem bæði eru í Þorlákshöfn, sóttu um auknar heimildir í vor og er Ísþór nú með leyfi fyrir eldi 600 tonna og Náttúra fiskirækt með leyfi til að rækta 1.200 tonn. Það er því greinilega mikill uppgangur hjá fiskeldisstöðvunum. Fleiri aðilar hafa sýnt því áhuga að hefja fiskeldi í Ölfusi en helstu kostir svæðisins eru mikið og gott lindarvatn, jarðhiti og landfræðilegar aðstæður auk þess sem fyrirhuguð dýpkun hafnarinnar gefur fyrirheit um bættar samgöngur með aukna möguleika á flutningi á seiðum eða fiski.