Frá og með næsta hausti munu tveir leikskólar, Bergheimar og Hraunheimar, verða starfræktir í Sveitarfélaginu Ölfusi. Starfsmenn skólaþjónustu Ölfuss ákváðu að kanna hug foreldra/forráðamanna sem eiga börn á leikskólaaldri.
Könnun verður send til foreldra/forráðamanna sem eru með barn/börn á leikskólanum Bergheimum eða með barn/börn á biðlista. Þeir foreldrar sem óska eftir að taka þátt í könnuninni og hafa ekki fengið hana senda mega senda póst á Jóhönnu M. Hjartardóttur, sviðsstjóra fjölskyldu og fræðslusviðs, jmh@olfus.is
Könnunin verður send út föstudaginn 28. febrúar 2025. Foreldrar svara aðeins einu sinni fyrir hvert barn en þurfa að taka þátt í könnun fyrir hvert barn. Ekki hægt að svara fyrir 2 eða fleiri börn í sömu könnun.
Leikskólinn Bergheimar er Hjallastefnuleikskóli en Hjallastefnan er félag á sviði uppeldis og menntunar sem starfrækir leikskóla og grunnskóla undir merkjum jafnréttis, lýðræðis og sköpunar. Allar upplýsingar um starfsemi Hjallastefnunnar má nálgast á heimasíðunni hjalli.is og nánari upplýsingar um Bergheima má finna á heimasíðu Bergheima bergheimar.hjalli.is.
Leikskólinn Hraunheimar er nýr leikskóli í Vesturbyggð í Þorlákshöfn. Í Hraunheimum er byggt á hugmyndum um læsi í víðu samhengi og leik sem námsleið. Læsi nær yfir hæfni til að skilja, túlka og tjá sig í mismunandi aðstæðum. Leikurinn er kjarninn í námi barna, þar sem þau efla sjálfstraust, félagsfærni og hæfni til að takast á við áskoranir. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Ölfuss.
