Barnakórar Grunnskólans á generalprufu fyrir Kardemommubæinn
Barnakórar Grunnskóla Þorlákshafnar flytja söngleikinn Kardemommubærinn á sviði Ráðhússins klukkan 18 í kvöld.
Í kvöld flytja barnakórar Grunnskóla Þorlákshafnar söngleikinn Kardemommubæinn á sviðinu í Versölum. Þetta er í fimmta skipti sem settur er upp söngleikur á vegum Tóna við hafið og er mikill metnaður lagður í verkefnið hverju sinni. Börnin hafa æft hlutverkin og sönglögin í vetur og gerðir eru búningar og undirbúin sviðsmynd fyrir uppsetninguna. Söguna af Kardemommubænum þekkja flestir en söngleikurinn byggir á barnabók eftir norska rithöfundinn Thorbjörn Egner. Þetta er söngleikur sem virðist tímalaus. Hann hefur oft verið settur upp og alltaf nær sagan af ræningjunum Kasper, Jesper og Jónatan og öðrum íbúum Kardemommubæjar að heilla áhorfendur.
Ókeypis er á söngleikinn, en Tónar við hafið njóta veglegs stuðnings frá Menningarráði Suðurlands. Gestir eru hvattir til að mæta tímalega til að ná sæti en sýningin hefst klukkan 18:00.