Drög að samþykkt um hundahald
Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss voru lögð fram drög að samþykkt um hundahald og samþykkt að setja drögin til kynningar á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem óskað verði eftir athugasemdum frá íbúum.
Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 23. júní sl. voru lögð fram drög að samþykkt um hundahald í Sveitarfélaginu Ölfusi og samþykkt að setja drögin til kynningar á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem óskað verði eftir athugasemdum frá íbúum. Frestur til að senda inn athugasemdir verði til 1. ágúst 2011. Athugasemdir óskast sendar á bæjarskrifstofur eða á tölvupóstfang olfus@olfus.is
Samþykkt um hundahald í Sveitarfélaginu Ölfusi
1. grein.
Bann við hundahaldi.
Hundahald er bannað í Sveitarfélaginu Ölfusi að undanteknum þarfahundum á lögbýlum og hundum sem notaðir eru til björgunarstarfa svo og aðstoðarhundum blindra og fatlaðra einstaklinga.
2. grein.
Undanþága frá banni við hundahaldi.
Bæjarstjórn er þó heimilt að veita lögráða einstaklingum sem lögheimili hafa í sveitarfélaginu undanþágu til hundahalds með eftirfarandi skilyrðum:
a) Hundurinn skal skráður á skrifstofu sveitarfélagsins og fær þar eigandi hundsins afhenta númeraða plötu sem jafnan skal vera í ól um háls hundsins. Skylt er að sækja um skráningu hunds innan tveggja vikna frá því að hundur er tekinn á heimili. Hvolpa skal skrá eigi síðar en þegar þeir ná þriggja mánaða aldri. Ekki skal skrá fleiri en þrjá hunda á hvert heimili.
Dveljist hundur tímabundið í sveitarfélaginu, skal skrá hann til bráðabirgða, en slík skráning skal þó ekki gilda lengur en í þrjá mánuði. Um hunda sem skráðir eru tímabundið gilda öll ákvæði þessarar samþykktar.
b) Árlega skal bæjarsjóði greitt leyfisgjald fyrir þá hunda sem undanþágan er veitt fyrir. Gjaldið skal ákveðið af bæjarstjórn sem umhverfisráðherra staðfestir. Við ákvörðun gjaldsins skal tekið mið af þeim kostnaði sem leiðir af framkvæmd þessarar samþykktar. Gjaldið skal í fyrsta sinn greitt við skráningu hunds og síðan árlega. Gjalddagi er 1. maí ár hvert. Í gjaldskrá skal einnig ákveðið handsömunargjald sbr. f-lið 2 gr. Óskráða hunda má ekki afhenda fyrr en að lokinni skráningu, greiðslu leyfisgjalds og áfallins kostnaðar.
Hundar sem eru notaðir við búrekstur á lögbýlum eru undanþegnir þessu gjaldi svo og hundar sem notaðir eru til leitar og björgunarstarfa, ásamt hundum sem að læknisráði eru notaðir til aðstoðar blindum og fötluðum einstaklingum. Hafi gjaldið ekki verið greitt innan mánaðar frá gjalddaga er heimilt að afturkalla leyfið svo og ef hreinsun hunda er ekki framkvæmd eftir settum reglum.
c) Sveitarfélagið Ölfus ábyrgðartryggir alla skráða hunda sem greitt er leyfisgjald af. Þeir hundaeigendur sem undanþegnir eru leyfisgjaldi skv. f-lið þessarar greinar ábyrgðartryggja hunda sína hjá viðurkenndu tryggingarfélagi og. Við hundahreinsun skulu hundaeigendur sem falla undir f-lið leggja fram kvittun frá tryggingarfélaginu sem sýnir að trygging sé að fullu í gildi.
Skilyrði fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsum er að allir íbúðaeigendur samþykki veru hundsins og skal leggja fram skriflegt samþykki þar að lútandi við skráningu hans.
Eigi er leyfilegt að hafa með sér hunda, þó í taumi séu, inní opinberar stofnanir, skólahús, matvöruverslanir eða aðra þá staði sem um ræðir í III til V og VII til XV kafla heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 með síðari breytingum en þeir eru m.a. eftirfarandi,
1. Vatnsveitur, vatnsból og verndarsvæði, brunnar og sjóveitur.
2. Almennings- og útisalerni.
3. Hvers konar sorpgeymslur og sorpförgunarstaðir.
4. Gististaðir, veitingastaðir og matsölustaðir.
5. Tjald- og hjólhýsasvæði nema með heimild umsjónaraðila.
6. Húsakynni þar sem geymd eru, framleidd eða seld matvæli.
7. Skóla, kennslustaði, barnaheimili og gæsluvellir.
8. Rakarastofur, hárgreiðslustofur, hvers kyns snyrti- og sólbaðsstofur.
9. Heilbrigðisstofnanir, hæli, heilsuræktar- og íþróttastöðvar og baðstaði.
10. Samkomuhús, hverskonar og almennar skrifstofur.
11. Kirkjugarðar, bálstofur, líkhús og líkgeymslur.
12. Almenn samgöngutæki.
e) Hundeiganda ber að hlíta að öðru leyti lögum og reglum er hundahald varðar þar á meðal reglum um árlega hreinsun hunda og greiðslu leyfisgjalds sbr. b-lið þessarar greinar svo og fyrirmælum sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands setur.
f) Bændum á lögbýlum er heimilt að hafa þarfahund án gjalds og einnig er heimilt að skrá viðurkennda veiðihunda án gjalds. Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Að öðru leyti skulu slíkir hundar háðir ákvæðum þessarar samþykktar. Skylt er bændum á lögbýlum og eigendum hunda sem nefndir eru í b-lið hér að framan að sjá til þess að hundar þeirra séu ekki lausir á almannafæri.
3. grein.
Eftirlit með hundahaldi.
Fyrir hönd bæjarstjórnar annast eftirlitsmaður á hennar vegum framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í sveitarfélaginu. Eftirlitsmaður getur leitað aðstoðar lögreglu þegar þörf krefur en að öðru leyti sér Umhverfisstofnun um eftirlit með framkvæmd reglugerðar um aðbúnað og umhirðu gæludýra nr. 1077/2004.
Ef eigandi eða umráðamaður hunds vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um hundahald getur bæjarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn.
Bæjarstjórn er heimilt, hvenær sem er, að afturkalla leyfi fyrir einstökum hundum eða öll veitt leyfi, telji hún þess þörf.
4. grein.
Vanræksla á skráningu hunda.
Vanræki hundahaldari að skrá hund þrátt fyrir ítrekun þar um hefur umsjónarmaður heimild til að láta sækja hundinn á heimili hundahaldara og láta lóga hundinum. Vanræki hundahaldari að skrá hund varðar það sekt skv. gjaldskrá bæjarins. Leita skal atbeina lögreglu sé þess þörf.
5. grein.
Fjöldi hunda á heimili.
Óheimilt er að halda fleiri hunda en þrjá, eldri en 4 mánaða hunda á sama heimili.
6. grein.
Hundaræktun.
Hundaræktun er bönnuð í þéttbýli. Um hundaræktun gildir reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
7. grein.
Bannaðar hundategundir.
Óheimilt er að halda hunda af eftirtöldum tegundum:
a. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier.
b. Fila Brasileiro.
c. Toso Inu.
d. Dogo Argentino.
e. Blendinga af ofangreindum tegundum.
f. Blendinga af úlfum og hundum.
g. Öðrum tegundum sem hættulegar eða óæskilegar eru að fenginni reynslu eða mati sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara sem viðurkenndur er af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
8. grein
Skammtímaheimsóknir.
Hundar sem ekki eru skráðir í Ölfusi mega ekki dveljast þar lengur en í þrjá mánuði nema með leyfi sveitarfélagsins og að fengnu samþykki samkvæmt 2. gr. sé um fjöleignarhús að ræða.
Um skammtímaheimsóknir hunda í húsum gildir ákvörðun eigenda einbýlis- og fjöleignarhúsa hverju sinni og/eða reglur viðkomandi húsfélags.
9. grein
Hundaskrá, tilkynningarskylda eiganda.
Upplýsingar um hunda skal skrá á skrifstofu bæjarfélagsins. Skrá skal heiti, aldur, kyn, tegund, litarhátt, númer örmerkis og önnur einkenni hunds. Þar skal einnig skrá nafn og heimilisfang leyfishafa.
Eiganda hunds ber að tilkynna sveitarfélaginu um aðsetursskipti. Einnig skal hann tilkynna sveitarfélaginu ef hundurinn drepst eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu. Eigendaskipti skal tilkynna með sama hætti.
10. grein
Ormahreinsun, örmerking og merkiplötur.
Skylt er að orma hreinsa hunda á hverju ári. Skal eigandi hunds skila vottorði dýralæknis um ormahreinsun hundsins til skrifstofu bæjarfélagsins, fyrir 31. desember ár hvert.
Hundur sem sótt er um leyfi fyrir skal örmerktur af dýralækni samkvæmt stöðlum Alþjóða-staðlaskrárráðsins, ISO 11784 eða 11785. Nr. 321 14. mars 2011
Hundar skulu ávallt bera ól með plötu um hálsinn, sbr. 1. mgr. 3. gr. Á plötuna skal greypa skráningarnúmer hunds og símanúmer eiganda hans. Þá skal við ólina festa merki sem sýni að árlegt eftirlitsgjald hafi verið greitt.
11. grein
Helstu varúðar-, aðgæslu- og umgengniskyldur.
Eigendur og umráðamenn hunda skulu gæta þess vel, að hundar þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna, með stöðugu eða ítrekuðu ýlfri eða gelti. Berist kvartanir vegna ónæðis skal gefa hundahaldara tækifæri til úrbóta, við ítrekaðar kvartanir skal bæjarstjórn senda aðvörun um að leyfi til hundahalds verði afturkallað, verði ekki lát á ónæði fyrir nærliggjandi íbúa. Við síendurtekin brot getur sveitarstjórn afturkallað leyfi til hundahalds og láta fjarlægja hunda af heimili.
Sveitarfélagið Ölfus getur krafist þess að eigandi hunds sæki hlýðninámskeið með hund sinn ef ástæða þykir til.
Eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda þeirra.
Óheimilt er að láta hunda vera lausa, nema nytjahunda, sbr. þó 13. gr., þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss, sbr. þó 13. gr., og í umsjá manns sem hefur fullt vald yfir þeim. Heimilt er þó að hafa hunda lausa undir eftirliti ábyrgs aðila innan hundheldrar girðingar.
Óheimilt er að tjóðra hund án eftirlits ábyrgs aðila eða skilja eftir eftirlitslausa utan húss eða á svölum eða afgirtum veröndum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð, skal taumurinn ekki vera lengri en svo að komast megi óhindrað að aðaldyrum viðkomandi húss. Taumur má ekki vera svo langur að hundur komist út fyrir lóðarmörk.
Hafi eigandi eða umráðamaður ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.
Bannað er að árásarþjálfa hunda.
Að öðru leyti skal fara að ákvæðum laga nr. 15/1994 um dýravernd og reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, eftir því sem við á.
12. grein.
Lausir hundar, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður.
Sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hann. Hunda í lausagöngu skal færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda um handsömunina svo fljótt sem auðið er. Eigandi hunds skal greiða allan kostnað við handsömun og geymslu hans áður en honum er afhentur hundurinn á ný. Ef hunds er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður, að undangenginni auglýsingu. nr. 321 14. mars 2011
13. grein.
Áminning og svipting leyfis vegna brota.
Ef eigandi hunds brýtur gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykkt þessari eða öðrum reglum sem um dýrahald gilda, getur sveitarfélagið afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Sveitarfélagsins Ölfuss..
Sé brot smávægilegt skal áminna eiganda hunds að undangengnum andmælarétti. Ítrekað brot gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykkt þessari eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda varðar afturköllun leyfis til hundahalds.
14. grein.
Ómerktir hundar.
Hundar úr aðliggjandi sveitum sem ekki eru í fylgd með eigendum eða umráðamanni og ómerktir eru svo og aðrir ómerktir flækingshundar skulu teknir úr umferð. Gefi eigandi sig ekki fram innan sjö sólarhringa hefur lögreglan eða dýralæknir heimild til þess að lóga viðkomandi hundi þegar í stað.
Merktir hundar á flækingi skulu einnig teknir úr umferð. Ef eigandi vitjar hans eigi innan sjö sólarhringa og svarar ekki til saka um brot á samþykkt þessari, sé um slíkt að ræða, hefur lögreglan eða dýralæknir heimild til að lóga hundinum án frekari fyrirvara.
Hundar sem ráðast á menn eða skepnur skal fjarlægja og lóga þegar í stað.
15. grein.
Viðurlög.
Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Eigendur eða umráðamenn hunda sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessar skulu sæta skriflegri áminningu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Ef eigandi eða umráðamaður hunds vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um hundahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn.
Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Um málskot fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Bráðabirgðaákvæði.
I.
Þeir sem halda fleiri hunda en þrjá þegar samþykktin tekur gildi er skylt að skrá þá innan sex mánaða og hafa þeir þá leyfi til að halda þá á heimili sínu á meðan þeir lifa.
Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Ölfuss staðfestist hé með skv. 1. gr. laga nr. 7/1953 um hundahald og varnir gegn sullaveiki svo og 1. tölulið 1. málsgr. 25 gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðar breytingum og öðlast gildi þegar við birtingu hennar.
Samþykkt í bæjarstjórn Ölfus xx. 2011.