Skráning er hafin í Lífshlaupið 2022
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.
Eins og ávallt hvetjum við alla landsmenn til þess að taka þátt í Lífshlaupinu og skapa skemmtilega stemningu og auka félagsandann á vinnustaðnum/í skólanum. Það er gaman að geta fylgst með sinni hreyfingu og jafnframt tekið þátt í þessari skemmtilegu landskeppni.
Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Hugum að heilsunni og verum dugleg að hreyfa okkur reglulega, munum að allt telur. Við óskum því eftir liðsinni ykkar að hvetja landsmenn til að taka þátt í Lífshlaupinu 2022!
Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:
- Vinnustaðakeppni frá 2. febrúar – 22. febrúar, fyrir 16 ára og eldri
- Framhaldsskólakeppni frá 2. febrúar – 15. febrúar, fyrir 16 ára og eldri
- Grunnskólakeppni frá 2. febrúar– 15. febrúar, fyrir 15 ára og yngri
- Einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið
SKRÁÐU ÞIG TIL LEIKS Á www.lifshlaupid.is/innskraning. Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og svo hér á ensku.
Við minnum á LífshlaupsAPP-ið þar sem mun einfaldara er að skrá alla hreyfinguna sína þegar maður er komin í lið. Hér má finna upplýsingar um LífshlaupsAPP-ið.
Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Linda Laufdal, verkefnastjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ á linda@isi.is. Einnig er hægt að hringja í síma 514-4000 eða senda fyrirspurnir á netfangið lifshlaupid@isi.is.
Samstarfsaðilar ÍSÍ vegna Lífshlaupsins eru: Advania, Rgás 2 og MS. Á meðan á Lífshlaupinu stendur eru bæði úrdráttarverðlaun alla virka daga sem og myndaleikur á samfélagsmiðlum. Það eru veglegir vinningar í boði frá eftirfarandi fyrirtækjum: Mjókursamsölunni, Ávaxtabílnum, Skautahöllinni, Klifurhúsinu, World Class, Primal Iceland, Lemon og Granólabarnum.