Samþykkt hefur verið að Sveitarfélagið Ölfus geri samning við Landgræðslu ríkisins um móttöku á seyru til að bera á land norðan og vestan við Þorlákshöfn
Sveitarfélaginu ber að vera með stað til að taka á móti seyru frá rotþróm í sveitarfélaginu eða geta vísað á stað sem hægt er að farga henni á. Mikill áburður er í seyru og með réttri meðhöndlun eða aðferð við að bera hana á er hún mjög góð til uppgræðslu. Samþykkt hefur verið að Sveitarfélagið Ölfus geri samning við Landgræðslu ríkisins um móttöku á seyru til að bera á land norðan og vestan við Þorlákshöfn. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands kemur að þessu verkefni með leyfisveitingu. Með þessu innleggi er verið að kynna íbúum þetta fyrirhugaða verkefni í uppgræðslumálum. Ekki er lyktarmengun eða önnur mengun af seyrunni þegar búið er að koma henni á sem áburði. Í skoðun hefur einnig verið að fara í samstarf við sveitarfélög í Árnessýslu um meðhöndlun á seyru, kölkun hennar þannig að bera megi hana beint á jörðina sem áburð. Sé seyra ekki meðhöndluð með kalki skal plægja hana niður í jörðina.
Frekari upplýsingar um framkvæmdina verða kynntar íbúum á kynningarfundi þar sem fjallað verður um þetta verkefni sem og sorpflokkun í sveitarfélaginu.
Sigurður Ósmann Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi.