Laugardagskvöldið 6. ágúst verða haldnir sannkallaðir stórtónleikar þar sem fram koma hátt í 100 manns og þegar mest lætur verða um 80 manns á sviði í einu.
Þessari framkvæmd fylgir gríðarlega mikill tæknibúnaður og umfangsmikil uppsetning sem hefst strax í dag, fimmtudag.
Síðustu daga hefur veðurspáin verið mjög misvísandi, lengi framan af með suð-austan leiðindar rigningu á laugardagskvöldinu svo ákvörðun var tekin í fyrrakvöld um að fara með tónleikana inn í Reiðhöll Guðmundar, en það hefur verið gert áður með góðum árangri þegar veðurspáin er tvísýn.
Nú hefur veðurspáin fyrir tónleikana vissulega batnað og spáir í raun bara mjög góðu veðri á meðan á tónleikunum stendur, en bæði fyrir og eftir tónleikana, þegar uppsetning og niðurtekt á rafmagnsbúnaði fer fram spáir það mikilli rigningu að tekin var ákvörðun um að halda okkur við það að vera með stórtónleikana inni í Reiðhöll Guðmundar.
Það verður öllu til tjaldað og enginn afsláttur gefinn af því að búa til ógleymanlega stemningu. Matarvagnarnir verða fyrir framan reiðhöllina frá kl. 18 og bekkir og borð til að tilla sér niður. Flugeldasýningin fer svo fram frá íþróttavellinum við íþróttahúsið, líkt og á síðasta landsmóti UMFÍ og hefst hún korteri eftir að síðasta lag hjómar í reiðhöllinni.
Að flugeldasýningu lokinni liggur leiðin svo á Hamingjuballið í Versölum þar sem Jónsi (í svörtum fötum) og Unnur Birna koma fram.
Þegar þið komið á tónleikana í reiðhöllinni er ekki svo galið að kippa með sér útilegustól og auðvitað klæða sig þannig að þið getið notið fram á nótt.