Gestir á upplestrarkvöldi bókasafnsins 2010
Gestir á upplestrarkvöldi bókasafnsins áttu notalega stund við kertaljós og skemmtilegan upplestur.
Í gærkvöldi bauð Bæjarbókasafn Ölfuss gestum að koma og hlusta á upplestur úr nýjum bókum. Það voru rithöfundarnir sjálfir sem lásu upp úr bókum sínum. Efni bókanna var ólíkt, Kristín Steinsdóttir las upp úr skáldösögu sinni Ljósu, Hákon Sigurgrímsson las upp úr æviminningum sínum skemmtilegan kafla sem fjallaði um ástina, Guðrún Hannesdóttir las upp úr ljóðabókinni Staðir, sem fengið hefur lofsamlega dóma og ekki að ástæðulausu eins og gestir fengu að heyra í gær. Eiríkur Guðmundsson las upp úr skáldsögu sinni Sýrópsmáninn, einnig var umfjöllin í þeim kafla ástin en einnig margt annað og að lokum las Þórður Helgason upp úr bráðskemmtilegri unglingabók sinni Vinur, sonur, bróðir.
Kvöldið var afskaplega notalegt og fóru gestir ánægðir og endurnærðir út í nóttina að stundinni lokinni, en höfundar þökkuðu kærlega fyrir góða stund og dásömuðu bókasafnið.