Nýr miðbær í Þorlákshöfn kynntur

Í gær fór fram kynning á nýjum miðbæ í Þorlákshöfn sem fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við á næstu árum. Fundurinn var afar vel sóttur og ljóst að mikil eftirvænting er eftir nýjum miðbæ. Á fundinum höfðu þau Grétar Ingi Erlendsson, Margrét Blöndal, Björn Guðbrandsson og Hjalti Jón Kjartansson orðið.

Grétar Ingi fór yfir þann mikla uppgang sem verið hefur í Þorlákshöfn og sveitarfélaginu öllu á seinustu árum. Þá gerði hann einnig grein fyrir þeim mörgu verðmætaskapandi verkefnum sem nú er unnið að og hvernig þau eru forsenda verkefna eins og miðbæjarins.

Margrét Blöndal sagði frá þeim miklu áhrifum sem miðbærinn á Selfossi hefur haft og hvernig hann hefur orðið jarðvegur mannlífs og menningar. Af hennar orðum var ljóst að með verkefnum sem þessum breytist þorp í bæ með iðandi lífi og uppbyggjandi samveru.

Björn Guðbrandsson arkitekt gerði svo ítarlega grein fyrir hönnun miðbæjarins og hvernig leitast hefur verið við að skapa hlýlegt og manneskjulegt umhverfi samhliða því að leggja grunninn að miðbæ sem tryggt getur uppbyggingu þjónustufyrirtækja eins og verslana, hótela, menningarhúss og fl.

Hjalti Jón fylgdi svo orðum Björns eftir með því að fara yfir framkvæmdina. Í máli hans kom meðal annars fram að framkvæmdir við fyrsta húsið munu hefjast á næstu vikum.

Í lok fundarins svöruðu framsögumenn svo spurningum gesta.

 

Hægt er að skoða hönnun hins nýja miðbæjar hér: linkur

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?