Ólafur Örn Ólafsson fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, hefur tekið við starfi bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Ólafur Örn Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, hefur tekið við starfi bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Ölfusi. Sigríður Lára Ásbergsdóttir, forseti bæjarstjórnar, afhenti honum lykla að skrifstofum bæjarfélagsins til merkis um að hann hefði tekið formlega við starfi.
Ólafur Örn er 52 ára að aldri, kvæntur Ásu Ólafsdóttur og eiga þau 4 börn, 2 syni og 2 dætur. Hann er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði og hefur undanfarin ár starfað sem bæjarstjóri í Grindavík.
Ólafur Örn er fæddur á Akureyri. Hann er með próf frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og útskrifaður útgerðartæknir frá Tækniskóla Íslands og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1986. Hann starfaði sem sjómaður og að háskólanámi loknu sem viðskiptafræðingur hjá Löggiltum endurskoðendum hf., Kerfi hf., Slippstöðinni hf. á Akureyri og Eimskipafélagi Íslands. Ólafur Örn var forstöðumaður Eimskips í Kanada frá 1996 -2001 og bjó þá á Nýfundnalandi og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Jysk Linen's Furniture Ltd. í Vancouver 2002.