Með breytingum sem gerðar voru á sveitarstjórnarlögum í júní 2013 var greitt fyrir því að hægt yrði að halda rafrænar íbúakosningar í sveitarfélögum.
Ölfus fyrst sveitarfélaga til að framkvæma rafræna íbúakosningu
Heimild í lögum til rafrænna íbúakosninga í umsjá Þjóðskrár Íslands
Með breytingum sem gerðar voru á sveitarstjórnarlögum í júní 2013 var greitt fyrir því að hægt yrði að halda rafrænar íbúakosningar í sveitarfélögum. Í bráðabirgðaákvæði sem sett var við sveitarstjórnarlögin segir m.a.: Í þeim tilgangi að styðja við framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum getur ráðherra heimilað, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, að íbúakosning á grundvelli X. kafla sveitarstjórnarlaga fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.
Þjóðskrá Íslands fékk það hlutverk að velja og reka kosningakerfi í þessum tilgangi og kynntu starfmenn stofnunarinnar sér stöðu rafrænna kosninga hjá nokkrum þjóðum sem hafa getið sér gott orð á því sviði. Fljótt kom í ljós að Norðmenn eru í fremstu röð í þessum efnum og höfðu verið í samstarfi við spænska fyrirtækið Scytl sem er leiðandi á þessu sviði í heiminum. Í ljósi jákvæðrar reynslu Norðmanna af kerfinu var ákveðið að leita eftir samstarfi við spænska fyrirtækið og í lok árs 2013 var gengið frá samningi um aðlögun og afnot Þjóðskrár Íslands af kosningakerfi Scytl auk framkvæmdar tvennra íbúakosninga í tilraunaskyni. Tvö íslensk sveitarfélög fá tækifæri til að taka þátt í þessum tilraunakosningum án þess að kostnaður falli á þau vegna kosningakerfisins eða aðkomu sérfræðinga Þjóðskrár Íslands að verkefninu.
Mjög líklegt er að verkefnið muni vekja athygli, jafnvel út fyrir landsteinana, þar sem eingöngu er um rafræna kosningu að ræða sem byggir á almennri kosningalöggjöf. Slík rafræn íbúakosning hefur aldrei farið fram á Íslandi.
Sveitarfélagið Ölfus fyrst allra og unga fólkið tekur þátt
Sveitarfélagið Ölfus mun fyrst sveitarfélaga á Íslandi framkvæma slíka kosningu en innanríkisráðuneytið hefur staðfest beiðni sveitarfélagsins um þátttöku í þessu tilraunaverkefni Þjóðskrár. Kannaður verður vilji íbúa til sameiningar sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög en þessu til viðbótar verður spurt um fleiri samfélagsleg atriði sem enn á eftir að móta.
Bæjarstjórn hefur tekið skrefið enn lengra og ákveðið að óska eftir því að kosningaaldur í þessari kosningu verði færður niður í 16 ár skv. heimild í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga. Það eru fjölmargar forsendur sem styðja það að færa kosningaaldurinn niður í 16 ár í slíkri kosningu en þeir sem eru á þessum aldri nú fá að kjósa í næstu áætluðu alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og svo er þetta verðug viðurkenning fyrir unga fólkið í Sveitarfélaginu Ölfusi sem stendur sig ákaflega vel og hefur margt uppbyggjandi til samfélagsins að leggja.
Kveikjan að samstarfi við Þjóðskrá Íslands
Samhliða sveitarstjórnarkosningum á síðastliðnu vori fór fram í Hveragerðisbæ ráðgefandi skoðanakönnun um sameiningarmál. Niðurstaða þessarar skoðanakönnunar var sú að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem voru fylgjandi sameiningu Hveragerðis við annað sveitarfélag valdi sameiningu Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar sendi í framhaldinu erindi til bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss með ósk um viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna tveggja.
Eftir viðræður við fulltrúa Hveragerðisbæjar ákvað bæjarstjórn Ölfuss á fundi 6. nóvember 2014 að fela bæjarstjóra að óska eftir þátttöku Sveitarfélagsins Ölfuss í tilraunaverkefni Þjóðskrár með rafrænar íbúakosningar, þar sem kannaður yrði m.a. vilji íbúa Sveitarfélagsins Ölfuss til sameiningar sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög, eitt eða fleiri. Niðurstöðurnar verði ráðgefandi fyrir bæjarstjórn við frekari umfjöllun um málið.
Kosningin fer fram á fyrri hluta árs 2015
Stefnt er að því að kosningin fari fram í mars árið 2015 en nákvæm dagsetning verður ákveðin þegar sér fyrir endann á undirbúningi. Almennt er mikilvægt er að spurningar í kosningum séu vel mótaðar en hér þarf einnig að huga að mótun ferla og verklags og að ýmsum hagnýtum atriðum. Þegar undirbúningi er lokið verður að auglýsa kosninguna með fjögurra vikna fyrirvara en kosning mun standa yfir í að lágmarki fjóra sólarhringa og að hámarki 10 sólarhringa.
Þetta verkefni er ákaflega spennandi og verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst með framkvæmd þess.