Þann 7.júní sl. komu forseti Íslands, Guðni Th.Jóhannesson og kona hans, Eliza Reid, í opinbera heimsókn til okkar í Ölfusi. Forsetahjónin hófu daginn í Herdísarvík þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri og Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar, tóku á móti gestunum og sögðu frá ábúendum í Herdísarvík. Þá var ekið til Þorlákshafnar þar sem hjónin fengu kynningu á fiskeldisstöðvum Laxa fiskeldis og Landeldis. Að því loknu tóku þau þátt í vorhátíð Grunnskólans í Þorlákshöfn þar sem nemendur sungu fyrir gestina og forseti flutti ávarp og afhenti gjöf til sveitarfélagsins. Hjónin þáðu svo hádegisverð í boði bæjarstjórnar á veitingastaðnum Hendur í höfn og fóru í framhaldi af því í heimsókn á skrifstofu hafnarinnar þar sem sagt var frá hugmyndum um verulega stækkun á höfninni og aukinni starfsemi þar á næstu árum. Þá heimsóttu forseti og forsetafrú Níuna, dagdvöl eldri borgara í bænum, og ræddu þar við starfsfólk og gesti og lauk heimsókninni svo með því að þau fengu kynningu á sögu Hjallakirkju í Ölfusi.