Síðastliðið haust kviknaði sú hugmynd hjá Samtökum lista- og handverskfólks í Ölfusi að hanna minjagrip sem væri einkennandi fyrir sveitarfélagið.
Hjá Samtökum lista- og handverksfólks í Ölfusi kviknaði sú hugmynd sl. haust að hanna minjagrip sem væri einkennandi fyrir sveitarfélagið. Sótt var um styrk hjá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands og er skemmst frá því að segja að samtökin fengu kr. 650.000 til hönnunar og útfærslu verkefnisins. Dagný Magnúsdóttir formaður félagsins tók að sér að vera verkefnisstjóri.
Sunneva Hafsteinsdóttir hjá Handverk og hönnun var fengin til að skoða og leiðbeina félagsmönnum um hvar styrkleikar þeirra lægju í þeim tilgangi að finna út hvers kyns hlutur yrði fyrir valinu. Niðurstaðan var að hanna lopapeysu með vísan í umhverfið; Þorlák helga, sjómennskuna og hafið. Ákveðið var að peysan skyldi vera símynstruð og tveggja banda. Nokkrir vinnufundir voru haldnir þar sem unnið var með prufur og hugmyndir. Handverkskonan Jenný D. Erlingsdóttir á heiður af mynstrinu sem að lokum varð fyrir valinu.
Hulda hjá fyrirtækinu Ístex var síðan fengin til að gera endanlegu uppskriftina og í kjölfarið var prufupeysan gerð. Félagsmenn voru mjög ánægðir með niðurstöðuna og því var ákveðið að víkka verkefnið svolítið út og gera mynstrið í grafík svo einnig væri hægt að prenta það á bómullarboli. Þórarinn F. Gylfason hjá auglýsingastofunni Argh í Þorlákshöfn á heiðurinn að grafísku útfærlsunni. Fyrirtækið Dogma prentar bolina.
Peysan og bolirnir verða til sölu í Herjólfshúsinu í Þorlákshöfn en þar hafa félagar í Samtökum lista- og handverksfólks einnig aðra listmuni sína til sölu.
Samtökin vilja þakka öllum þeim sem lagt hafa félaginu lið við framkvæmd þessa verkefnis, einkum Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands sem lagði grunninn að því að hugmyndin varð að veruleika.
Stjórn Samtaka lista- og handverksfólks í Ölfusi.