Sigurður frá SAS verk, Arnar Jónsson og Óskar Gíslason
Ungir Þorlákshafnarbúar, Sjöfn Sæmundsdóttir og Arnar Jónsson eru að byggja stórt hesthús sem mun nýtast sem reiðskóli
Það hefur ekki verið mikið um byggingaframkvæmdir í Þorlákshöfn hin síðustu ár og því gleðiefni að sjá steypubíl keyra í gegnum bæinn einn góðviðrisdag í janúar. Þegar undirrituð fór á vettvang til að forvitnast um hvað ætti að steypa varð gleðin enn meiri. Arnar Jónsson og Sjöfn Sæmundsdóttir, ungt par í Þorlákshöfn eru að fara að byggja um 300 fermetra hesthús sem mun innihalda tuttugu einshestastíur, en það eru stíur fyrir einungis einn hest hver. Í öðrum endanum á húsinu verður inniaðstaða með speglum þar sem hægt verður að bjóða upp á ásetuæfingar og reiðnámskeið fyrir börn.
Sjöfn lauk á síðasta ári þriggja ára háskólanámi á Hólum og er nú komin með reiðkennararéttindi auk þess að vera alvön tamningamanneskja. Hún ásamt Arnari, ætlar að bjóða upp á reiðnámskeið fyrir alla aldurshópa. Einnig verður boðið upp á eins til tveggja vikna námskeið fyrir erlenda ferðamenn sem geta þá gist í Þorlákshöfn. Þetta verkefni verður unnið í samstarfi við Jón Arason, föður Arnars, en hann rekur Gistiheimili Jonna. Boðið verður upp á spennandi ferðir um landið ásamt reiðnámskeiði.
Sjöfn leggur metnað í að temja sjálf hestana sem þjálfaðir verða fyrir reiðskólann, þannig getur hún boðið upp á sérþjálfuð hross í kennsluna.
Það verður spennandi að fylgjast með þessri uppbyggingu en mikil eftirspurn er eftir reiðskóla á Suðurlandi.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar undirstöður undir grunninn voru steyptar. Ennfremur er þarna að finna mynd af hestakonunni Sjöfn Sæmundsdóttur.
BHG