Fréttatilkynning
Skrifað var undir samstarfssamning um Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings í Hveragerði í gær
Samstarf um skóla- og velferðarþjónustu
Skrifað var undir samstarfssamning um Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings í Hveragerði í gær. Að samstarfinu standa Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Grímsness og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.
Um er að ræða eitt svæði sem sér um sérfræðiþjónustu fyrir skóla- og velferðarþjónustu með sameiginlega skóla- og velferðarnefnd. Sameiginlegur yfirmaður verður yfir þjónustunni. Skólaþjónustan starfar á einu starfssvæði en með þrjár starfsstöðvar, í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Borg í Grímsnesi. Félagsþjónustan er með þrjú starfssvæði, Þorlákshöfn, Hveragerði, Uppsveitir Árnessýslu og Flóahrepps. Til að sinna málefnum skólaþjónustunnar hefur nú verið gengið frá ráðningu tveggja kennsluráðgjafa auk eins sálfræðings.
Hinni nýju skóla- og velferðarþjónustu er ætlað að vinna á grundvelli heildarsýnar í málefnum einstaklinga og fjölskyldna og að stuðla að sjálfbærni skóla og stofnana aðildarsveitarfélaga þar sem áhersla er lögð á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, fræðslu, forvarnir og þverfaglegt samstarf.
Markmið samstarfsins er að efla samstarf milli sveitarfélaganna á svæðinu á sviði skóla- og velferðarþjónustu, nýta tækifæri til að samþætta sérfræðiþjónustu fyrir skóla- og velferðarþjónustuna með það að markmiði að minnka faglega einangrun starfsmanna. Með þessu verði skapað teymi starfsmanna sem samstíga vinnur að því að efla og bæta þjónustu við íbúa, nemendur og starfsfólk skóla.
Rúm tvö ár eru liðin frá því að sömu sveitarfélög tóku upp samstarf um félagsþjónustu. Reynslan af því samstarfi hefur verið mjög góð og eru bundnar miklar vonir við að með útvíkkun samstarfsins til þjónustu á sviði skólamála skapist enn betri tækifæri til að vinna heildstætt í þágu barna, ungmenna og annarra íbúa á svæðinu.
Myndatexti:
Gunnar Þorgeirsson, Margrét Sigurðardóttir, Drífa Kristjánsdóttir, Gunnsteinn R. Ómarsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Björgvin Skafti Bjarnason og Ragnar Magnússon.