Brunavarnir í Ölfusi
Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum 26. nóvember síðast liðinn að sameina Slökkvilið Þorlákshafnar Brunavörnum Árnessýslu.
Aðdragandi
Til margra ára hefur verið rekið sérstakt slökkvilið í Þorlákshöfn sem þjónað hefur byggðinni í Þorlákshöfn og næsta nágrenni. Samstarfssamningur hefur verið á milli slökkviliðs í Hveragerði og Sveitarfélagsins Ölfuss um þjónustu slökkviliðsins við dreifbýli Ölfuss.
Samningur þessi sem síðast var endurnýjaður árið 2003 gerir ráð fyrir að Sveitarfélagið Ölfus greiði 35% af rekstrarkostnaði slökkviliðs í Hveragerði. Í samningnum milli Hveragerðis og Ölfuss er fjallað um fleiri þætti svo sem byggingu og rekstur grunn- og leikskóla. Fyrir um tveimur árum ákvað bæjarstjórn Hveragerðis að óska eftir endurskoðun á samningnum með það í huga að Sveitarfélagið Ölfus greiddi allt að 50% í rekstri Slökkviliðsins í Hveragerði.
Breyttar aðstæður
Bæjarstjórn Ölfuss ákvað í framhaldi af þessu að fara í heildarendurskoðun á brunavörnum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið Ölfus hefur stækkað mikið á undanförnum árum, nýjir byggðakjarnar hafa risið í dreifbýli, virkjanir og önnur mannvirki á Hellisheiði, auk þess sem að umferð hefur aukist á svæðinu. Niðurstaða bæjarstjórnar var að sameinast Brunavörnum Árnessýslu og var það mat bæjarstjórnar að þannig væru heildarhagsmunir og öryggi íbúanna best tryggt.
Þjónusta
Á undanförnum árum hefur bæjarstjórn lagt mikið upp úr því að kynna sveitarfélagið sem áhugaverðan kost fyrir fyrirtæki til þess að koma á fót iðnaði, stórum sem smáum. Með tilkomu Suðurstrandarvegar opnast svæði fyrir vestan byggðina í Þorlákshöfn sem er mjög ákjósanlegt byggingarland fyrir iðnaðaruppbyggingu. Bæjarstjórn vinnur nú að breytingum á aðalskipulagi 2002-2014 sem felur í sér iðnaðarsvæði 535 ha. að stærð ásamt línulögnum uppí tengivirki Landsnets á Hellisheiði. Markmiðið með breytingunum er að nýta þá orku sem verður til í sveitarfélaginu til atvinnuuppbyggingar fyrir suðurland. Í viðræðum við stórfyrirtæki er farið yfir þjónustustig sveitarfélagsins og þá möguleika svo sem slökkvilið hefur til þess að bregðast við eldsvoða. Slökkviliðið í Þorlákshöfn hefur á að skipa góðu og hæfileikaríku starfsfólki sem þjónað hefur byggðinni með miklum ágætum. Þrátt fyrir það hefur ávallt komið fram í viðræðum við stórfyrirtæki að efla þyrfti brunavarnir á svæðinu. Auk þess sem að sveitarfélagið er víðfermt krefst það brunavarna sem þjónar öllu svæðinu í heild sinni.
Brunavarnir Árnessýslu
Að Brunavörnum Árnessýslu standa sveitarfélögin Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og nú Sveitarfélagið Ölfuss. Brunavarnir hafa starfsstöðvar á Selfossi, Stokkseyri, Laugarvatni, Reykholti og Árnesi, þ.e. slökkviliðsbíla, húsnæði og mannskap. Með sameiningu Slökkviliðs Þorlákshafnar við Brunavarnir Árnessýslu verður sú eina breyting að í stað slökkviliðsstjóra í Þorlákshöfn verður varðstjóri sem starfar í nánu samstarfi við slökkviliðsstjóra og varðstjóra Brunavarna Árnessýslu á hinum starfsstöðvunum. Tækjabúnaður, fjöldi slökkviliðsmanna og húsnæði verður með sama fyrirkomulagi og nú er. Æðsta vald í málefnum Brunavarna Árnessýslu er falið fulltrúaráði sem skipað er fulltrúum frá öllum aðildarsveitarfélögum.
Að lokum
Bæjarstjórn er það fullljóst að allar breytingar á þjónustu sem eins og í þessu tilfelli hefur verið farsæl eru viðkvæmar. Staða mála er með þeim hætti að ekki náðist áframhaldandi samkomulag við bæjarstjórn Hveragerðis um áframhaldandi þjónustu við dreifbýli Ölfuss á viðunandi kjörum. Því var sú leið farin að ganga inní Brunavarnir Árnessýslu og er það von okkar að samstarfið gangi vel og tryggi öllum íbúum sveitarfélagsins fullnægjandi þjónustu á sviði brunavarna.
Ölfusi 27. nóvember 2009,
Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri