Stórglæsilegir tónleikar

Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar
Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar
Um 250 manns var á sviðinu þegar mest var á stórglæsilegum tónleikum á laugardagskvöldinu í íþróttahúsi Þorlákshafnar
Um 250 manns var á sviðinu þegar mest var á stórglæsilegum tónleikum á laugardagskvöldinu í íþróttahúsi Þorlákshafnar. Tónleikarnir voru hápunktur Landsmóts Sambands íslenskra lúðrasveita sem sjaldan hefur verið jafn fjölmennt og þetta árið.  Lúðrasveit Þorlákshafnar skipulagði landsmótið og ákvað í aðdragandanum að leitast við að að endurspegla þá grósku sem átt hefur séð stað í starfi lúðrasveita undanfarin ár og samstarfið sem margar lúðrasveitir hafa átt við ýmsa popptónlistarmenn.  Yfirskrift tónleikanna var Popphornið. Þátttakendum var skipt upp í nokkrar sveitir sem spiluðu með hljómsveitinni 200.000 naglbítum, Jónasi Sigurðssyni, Fjallabræðrum og Sverri Bergman.
 
Íþróttahúsinu var breytt í tónleikahöll og mikil stemning ríkti í bænum fyrir tónleikana.  Fjölmargir aðstoðuð við undirbúninginn og mikill stuðningur var við verkefnið var af hálfu sveitarfélagsins, fyrirtækja í Ölfusi og bæjarbúa allra.
 
Skemmst er frá því að segja að uppselt var á tónleikana þar sem stólum fyrir 750 tónleikagesti hafði verið raðað.  Tónleikarnir tókust sérlega vel og eiga eftir að lifa lengi í minningu þeirra sem mættu. Aðrir geta glatt sig við það að Rás 2 tók tónleikana upp og verða þeir fluttir í útvarpinu fljótlega.
 
Þessi vel heppnaði viðburður er enn ein rósin í hnappagat Lúðrasveitar Þorlákshafnar sem virðist geta ráðist í nánast hvaða verkefni sem er. 
 
Takk fyrir okkur.

Davíð Þór Guðlaugsson tók fjölda glæsilegra mynda á tónleikunum sem hægt er að skoða á vef Hafnarfrétta:
http://hafnarfrettir.is/2013/10/06/fullt-hus-a-frabaerum-tonleikum-myndasafn/
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?