Síðasti dagur Racing the Planet er í dag, þar sem hlaupið verður til Þorlákshafnar og út í Herdísarvík.
Síðastliðna daga hefur farið fram alþjóðlegt hlaup á Íslandi undir heitinum Racing the planet. Þetta er í fyrsta skipti sem hlaupið er á Íslandi. Heilmikið skipulag er í kringum hlaupið þar sem um 200 hlauparar taka þátt og á hverjum degi er hlaupið meira en 40 kílómetrar.
Hlaupið hófst síðastliðinn sunnudag í Kerlingarfjöllum og í gæri gisti hópurinn við Skarðsmýrarfjall á Hengilssvæðinu. Í dag er síðasti en jafnframt lengsti hlaupadagurinn. Hlaupin er yfir 60 km leið eftir slóða austan Meitla, síðan niður að strönd á landi Hrauns, eftir sandströndinni til Þorlákshafnar og í bænum verður hlaupið eftir Hafnarskeiði að útsýnisskífu, vita og áfram Nesið sem leið liggur með berginu út í Selvog. Hlaupinu lýkur í Herdísarvík, en vegna afleitrar veðurspár fær hópurinn að gista í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn næstu nótt.
Búið er að setja upp bleikar veifur og slaufur til að merkja leiðina og ættu fyrstu hlaupararnir að fara að mæta í Þorlákshöfn upp úr hádegi. íbúar eru hvattir til að hvetja hlauparana hvar sem þeir sjá þá og ökumenn eru beðnir um að taka tillit til þeirra þegar þeir hlaupa um bryggjusvæðið og Hafnarskeiðið.
Fleiri myndir teknar af hlaupurum í Þorlákshöfn er hægt að skoða á fésbókarsíðunni "menning og viðburðir í Ölfusi" eða um slóðina: https://www.facebook.com/media/set/?set=a.10151781134353749.1073741831.136961043748&type=1
Barbara Guðnadóttir