Sveitarfélagið Ölfus hefur fengið úthlutað sumarstörfum fyrir námsmenn í tengslum við átaksverkefni Velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Stuðningur Vinnumálastofnunar miðast við ráðningu í 2,5 mánuð á tímabilinu 25.maí -15.september nk. Um er að ræða 100% störf.
Störfin eru opin öllum þeim sem eru á milli anna eða skólastiga og eru 18 ára á árinu og eldri.
Sveitarfélagið Ölfus auglýsir því eftir starfsmönnum í eftirfarandi störf:
Kortlagning á Þorláksskógum
Að útbúa kort af Þorláksskógum með landslagi og stígum í þeim tilgangi að nota við gerð Svæðisskipulags. Kortlagning með loftmyndum sem teknar eru með dróna og jarðefni og gróðurþekja skráð gróflega.
Um er að ræða sumarstarf fyrir nemanda í landafræði, landslagsarkitektúr eða greinum sem nýtast við framkvæmd verkefnisins. Upplýsingar um starfið veitir Páll Marvin Jónsson verkefnastjóri Ölfus Cluster pmj@olfus.is
Orkuskipti hafnarinnar
Mat á hagkvæmni þess að setja upp vetnisafgreiðslu, skipta út farartækjum og vinnuvélum í eigu sveitarfélagsins fyrir umhverfisvænn kost og stuðla að því að fyrirtæki með starfsemi á hafnarsvæðinu geri slíkt hið sama.
Að greina starfsemina sem fer fram í og við höfnina í dag með tilliti til eldsneytisnotkunar og setja upp sviðsmyndir þar sem farartæki og vinnuvélar verða knúnar áfram með einungis grænni orku. Gera kostnaðarmat gagnvart uppbyggingum innviða fyrir vetni sem eldsneyti og áætla möguleg áhrif orkuskipta á vistspor hafnarinnar.
Um er að ræða sumarstarf fyrir nemanda í umhverfisfræði eða tengdum greinum. Upplýsingar um starfið veitir Páll Marvin Jónsson verkefnastjóri Ölfus Cluster pmj@olfus.is
Kolefnisspor sveitarfélagsins
Að reikna út kolefnisspor stofnana sveitafélagsins og koma með tillögur eða setja upp aðgerðaráætlun um leiðir til þess að draga úr losun. Skoða og greina verklag og innkaup stofnana sveitafélagsins á búnaði og rekstrarvörum með tilliti til vistspors. Koma með tillögur að breyttu verklagi ásamt hugmyndum að umhverfisvænni rekstrarvöru þar sem þurfa þykir.
Um er að ræða sumarstarf fyrir nemanda í umhverfisfræði eða tengdum greinum. Upplýsingar um starfið veitir Páll Marvin Jónsson verkefnastjóri Ölfus Cluster pmj@olfus.is
Þorlákshöfn í 3D
Að teikna upp og útbúa 3D líkan af húsum Þorlákshafnar og setja á Google Earth. Notast er við forritið Sketch Up og gróft líkan gert af öllum helstu byggingum Þorlákshafnar. Byggingarnar eru síðan settar inn á Google Earth sem er opinn kortavefur og gerir íbúum og almenningi kleift að skoða 3d líkan af bænum. Líkanið getur jafnframt nýst í skipulagsvinnu og/eða kynningu á sveitafélaginu.
Um er að ræða sumarstarf fyrir nemanda í arkitektúr eða greinum sem nýtast við framkvæmd verkefnisins. Upplýsingar um starfið veitir Páll Marvin Jónsson verkefnastjóri Ölfus Cluster pmj@olfus.is
Tilraunareitir fyrir landgræðslu með lífrænum úrgangi frá fiskeldi
Að meta virkni lífræns úrgangs til uppgræðslu á tilraunareitum innan Þorláksskóga og meta áhrif á nærliggjandi svæði með tilliti til hugsanlegrar mengunar á grunnvatni og lyktarmengunar og þá sérstaklega með tilliti til íbúa í Þorlákshöfn.
Sveitarfélagið í samstarfi við samstarfshóp um Þorláksskóga og fiskeldisfyrirtæki á svæðinu mun bera lífrænan áburð á tilraunareiti innan Þorláksskóga svæðisins. Gerðar verða mælingar á áhrifum á sprettu á svæðinu annars vegar og hins vegar hve langt lykt dreifist frá svæðinu og hve lengi hún varir. Einnig verða tekin jarðvegssýni og reynt að meta hvort mengunaráhrifa í formi óæskilegrar bakteríumyndunar verði vart í jarðvegi. Mikið magn lífræns úrgangs mun falla til frá fiskeldi á komandi árum og mikil vöntun er á næringarefnum sem úrgangurinn inniheldur á Þorláksskógar svæðinu. Ókosturinn við þennan úrgang er hins vegar mikil lyktarmengun og því mikilvægt að meta hvort óhætt sé að nýta þennan áburð í nálægð við þéttbýlið annars vegar og hins vegar gagnvart ferskvatnstöku á svæðinu.
Um er að ræða sumarstarf fyrir nemanda í hinum ýmsu greinum Landbúnaðarháskóla Íslands. Upplýsingar um starfið veitir Páll Marvin Jónsson verkefnastjóri Ölfus Cluster pmj@olfus.is
Laun eru samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðeigandi stéttarfélags.
Ath. Nemendur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands geta fengið vinnu ákveðinna verkefna metna til eininga en þá þarf sá hinn sami að fá samþykki fyrir því fyrirfram.
Umsóknarfrestur er til og með 27.maí nk. Umsóknum skal fylgja starfsferilsskrá, staðfesting á námi vegna vor- og/eða haustannar 2021, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur þess starfs sem sótt er um. Umsóknir skal senda á netfangið olfus@olfus.is