Svar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss við opnu bréfi Kristínar Magnúsdóttur sem birtist á vefmiðlinum Hafnarfréttum 24. febrúar 2017

Svar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss við opnu bréfi Kristínar Magnúsdóttur sem birtist á vefmiðlinum Hafnarfréttum 24. febrúar 2017. Allir bæjarfulltrúar utan oddvita D lista standa að þessu svarbréfi.

Í bréfinu koma fram spurningar um nokkur atriði, s.s kaupverð, kostnað við endurbætur og kostnað við rekstur hússins og meðferð bæjarstjórnar gagnvart ráðstöfun á húsinu.
 
Þegar sveitarfélagið keypti Selvogsbraut 4 fyrir rúmu ári síðan var kaupverð skv. kaupsamningi 30 m.kr. en í kaupsamningi kom einnig fram að uppgjöri á tjóni af hálfu vátryggingafélagsins Varðar væri ekki lokið.
 
Ýmiss bókfærður rekstrarkostnaður vegna hússins frá kaupum til dagsins í dag er kr. 2.262.999,- en þar af eru kr. 767.420,- fasteignargjöld.
 
Kostnaður við endurbætur er kr. 4.029.002,- að teknu tilliti til greiðslu tryggingarbóta sem voru 2 milljónir. Þegar gagntilboð var gert þar sem verðið á húsinu var sett 33 milljónir var bókaður nettókostnaður vegna endurbóta rétt rúmar 3 milljónir, reikningur upp á tæpa milljón var ekki fram kominn þá.
 
Bæjarstjórn hefur verið samstíga í því að leita eftir áhugaverðri starfsemi í húsið sem ætlað er að styðja við atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og þá sér í lagi á sviði þjónustu við ferðamenn. Bæjarstjórn ákvað að setja ráðstöfunarferlið ekki í hendur fasteignasala heldur bóka um húsið með formlegum hætti, auglýsa á heimasíðu og nýta samfélagsmiðla.
 
Húsið var auglýst til sölu eða leigu með formlegri auglýsingu í októberblaði Bæjarlífs og á Hafnarfréttum í október. Allt frá því sveitarfélagið keypti húsið hefur mikil umfjöllun verið um húsið, s.s. í pistla- og fréttaskrifum í Bæjarlífi og Hafnarfréttum auk þess sem kallað var eftir áhugaverðum hugmyndum í húsið á heimasíðu sveitarfélagsins. Húsið hefur fengið mikla athygli og er það ekki síst fyrir tilstilli samfélagsmiðilsins Facebook.
 
Áður en sveitarfélagið festi kaup á húsinu hafði það verið í formlegu söluferli til margra ára, án árangurs og var húsið farið að láta verulega á sjá. Meðferð hússins frá ákvörðun bæjarstjórnar um kaup og til sölu hefur að fullu verið gagnsæ, þ.e. kjörnir fulltrúar hafa að fullu verið upplýstir og tekið þátt í verkefninu. Engum upplýsingum hefur verið haldið leyndum. Bæjarstjórn ákvað að verðleggja ekki húsið heldur óska eftir áhugaverðum verkefnum í húsið og lagði það alfarið í hendur áhugasamra að koma með tillögur og tilboð.
 
 
Það er rétt að það komi fram að bæjarstjórn var einhuga um það að selja húsið á 33 milljónir króna og bæjarstjórn var að fullu upplýst um félagið SF2014 og um hverjir standa á bak við það félag. Ágreiningur er meðal kjörinna fulltrúa sem snýr að því hvort sveitarfélagið láni allt kaupverðið með viðtöku á skuldabréfi eða að kaupandinn fjármagni kaupin sjálfur og geri kaupin upp innan árs. Niðurstaðan, eftir tilboð og gagntilboð, varð að kaupverðið er 33 m.kr og greiðist með verðtryggðu skuldabréfi til 5. ára ásamt vöxtum og hvíli á 1. veðrétti á Selvogsbraut 4.
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?